Thelma Þorbergsdóttir
Afmælisbomba og fylltar marengsskálar
03. febrúar 2017

Afmælisbomba og fylltar marengsskálar

Ég er þekkt fyrir að gera mjög stórar kökur fyrir afmæli og önnur tilefni. Flestir byrja á því að veina og segja vá hvað þetta er stór kaka það er varla hægt að skera hana, ég mun aldrei ná að klára þetta. Flestir gúffa þessu þó í sig með bestu list og þeir allra hörðustu fá sér aðra sneið. Það er eitthvað svo fallegt við svona stórar hnallþórur á fallegum kökudiski, þær bera alveg af á veisluborðinu.

Ég fór í afmæli til vinkonu minnar um daginn sem var með svo fallega köku með svampbotnum, hún var með peru og bönunum að mig minnir og fleira með því og rjóma og skreytt fallega með jarðarberjum. Mr. Handsome langaði ótrúlega að smakka hana þangað til hann heyrði perur. Ég ákvað því að bæta honum það upp og skellti í eina svipaða og gerði mína eigin útgáfu með allskonar góðgæti sem honum finnst gott.

Það er best að setja á hana deginum áður en hún er borin fram en þá nær hún að blotna vel. Einnig er hægt að setja Nutella súkkulaðismjörið saman við rjómann til að neðri botninn blotni enn frekar fyrir þá sem vilja

Ég ætla svo að láta fylgja með eftirrétt sem ég gerði fyrir áramótin hjá okkur. Marengs klikkar að sjálfsögðu aldrei svo gestirnir hér voru alsælir.

Í febrúar verður prinsinn minn svo 8 ára gamall, það verður spennandi hvaða afmælisþema hann velur sér! Það verður pottþétt eitthvað úr teiknimyndum sem hann elskar og kann utan að, afturábak og áfram, t.d. Leynilíf dýranna eða Sing, en það kemur í ljós. Ég ætla að deila því með ykkur í næsta bloggi. Njótið. 

Afmælisbomba með súkkulaðirjóma

Innihald

Svampbotn

2 egg
80 g sykur
40 g hveiti
40 g kartöflumjöl
1 tsk. lyftiduft

Aðferð

Hitið ofninn í 170 gráðu hita með undir- og yfirhita. Setjið smjörpappír í kringlótt smelluform um, 22 cm að stærð. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Sigtið kartöflumjöl og hveiti í skál og blandið saman ásamt lyftiduftinu. Blandið hveitiblöndunni saman við eggjablönduna með sleif og hrærið varlega þar til allt hefur blandast vel saman. Bakið í rúmlega 30 mínútur. Kælið botninn alveg áður en þið setjið á hann.

Marengsbotn

150 g sykur
3  eggjahvítur

Aðferð

Setjið smjörpappír á ofnplötu og setjið til hliðar. Þeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum varlega saman við. Þeytið þar til blandan er orðin stíf og stendur. Myndið hring sem er jafn stór og formið sem svampbotninn er bakaður í, eða setjið marengsinn í smelluform. Bakið í 50 mín við 150 gráður, eða þar til marengsinn er alveg þurr viðkomu. Kælið botninn áður en þið setjið kökuna saman.

Fylling

4 kókosbollur
3 msk. Nutella
¼  lítri rjómi
250 g jarðarber
8 stk. Oreo kexkökur

Aðferð

Setjið svampbotninn á kökudisk, hérna getið þið sett Nutella ofan á botninn strax, en hann blotnar ekki eins mikið og ef rjóminn væri settur beint ofan á. Þetta er í rauninni ykkar val hversu blautan svampbotn þið viljið fá. Ég setti Nutella ofan á botninn, raðaði svo kókosbollunum með jöfnu millibili yfir botninn og setti svo rjómann ofan á. Þeytið rjómann, en passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Skerið jarðarberin gróflega niður ásamt Oreo kexkökunum og blandið saman við rjómann. Setjið rjómann á kökuna. Setjið marengsbotninn ofan á og þrýstið honum varlega niður

Toppur

½ lítri rjómi
3 msk. kakó
Skreytt með Oreo kexi og jarðarberjum

Aðferð

Þeytið rjómann en passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Blandið kakói saman við og hrærið með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Smyrjið rjómanum yfir alla kökuna. Skreytið með jarðarberjum og Oreo kexkökum Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram. Það er gott að setja á kökuna deginum áður.

---

Fylltar marengsskálar

Innihald

3 eggjahvítur
150 g sykur
½ tsk. lyftiduft

Aðferð

Þeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum varlega saman við þar til blandan er orðin stíf og stendur. Blandið lyftiduftinu saman við og hrærið vel. Setjið stút á sprautupoka t.d. stút nr. 1M eða þann sem þér þykir fallegur. Setjið marengsinn í pokann og sprautið honum á bökunarplötu þannig að þið myndið fallega skál. Þið byrjið á því að sprauta hring sem er þá botninn og farið svo upp til að mynda hliðar. Þið getið gert skálarnar eins stórar og litlar og þið viljið. Ég gerði frekar stórar skálar og fékk ég 8 stk. úr þessari uppskrift. Einnig er hægt að setja matarlit saman við marengsinn og gera skálarnar í hinum ýmsu litum. Takið úr ofninum og kælið alveg áður en þið fyllið skálarnar.

Fylling

Kókosbollur
Jarðarber
Rjómi
Brætt Mars

Fyllingin getur verið hvað sem hugur ykkar girnist og gott er að nota hugmyndaflugið hér. Sumir vilja hafa ávexti eða önnur ber, dökkt súkkulaði eða súkkulaðisíróp eða aðrar sósur. Geymið í kæli þar til þið berið skálarnar fram, gott er að undirbúa þær deginum áður. 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!