Thelma Þorbergsdóttir
Afmæli og heitur aspasréttur
04. september 2015

Afmæli og heitur aspasréttur

Þetta krútt varð 5 ára í sumar. Hún gat ómögulega valið hvaða þema hún vildi hafa í afmælinu sínu eða hvernig köku hún ætti að velja. Hún skipti um skoðun mörgum sinnum frá því að vilja skellibjölluafmæli, monster high afmæli, hesta afmæli eða allt í bland. Hún endaði þó á því að velja sér hesta afmæli þar sem hún er búin að vera að fara á hestbak og elskar það. Það að gera afmæli með ákveðnu þema þarf ekki að vera flókið og vorum við með mjög einfaldar skreytingar og ofan á kökuna skelltum við bara hestum og kertum. 

Við skreyttum borðið og bollakökur með myndum sem við klipptum út. Hildi fannst það ekki leiðinlegt að klippa og líma með mömmu sinni og skreyta kökurnar. Þið getið fundið skrautið fyrir afmælið hér á þessari síðu http://marigoldmom.com/?p=5072 og það er frítt!

Diskana fundum við í Toys 'R' Us sem pössuðu einstaklega vel við.

Ég ætla þó að deila með ykkur einni klassískri uppskrift af heitu aspasbrauði sem flest öllum finnst gott og gerir svanga fullorðinsmaga svo glaða þegar þeir sjá þennan rétt á borðum. Hann er það einfaldur að maður man ekki alveg hvað er í honum, eða þannig er það allavega hjá mér og ég þarf einhvern veginn alltaf að fletta því upp. Ég ákvað því að deila með ykkur hvernig ég geri hið klassíska aspasbrauð því mín útgáfa er auðvitað svakalega góð!

Afmælisgleði

 

Ég notaði blúndustút til þess að skreyta kökuna sem er mun einfaldara en það lítur út fyrir að vera. Þeir eru til í mörgum stærðum, mér finnst stóru koma mjög vel út því þá verða blúndurnar grófar. Þið setjið þunnt lag af kremi yfir alla kökuna til þess að festa hana saman. Svo setjið þið stútinn í sprautupoka og setjið breiðari enda stútsins alveg upp að kökunni og sprautið af krafti upp hliðarnar á kökunni. Um að gera að prófa að sprauta á smjörpappír áður en þið farið af stað. 

Við festum bollakökumyndirnar á kökupinna, vorum með tvær eins myndir og límdum þær á móti hvor annarri á pinnann. Happy birthday borðann festum við á bleikan þykkan borða og festum með litlum þvottaklemmum.

 

Heitt aspasbrauð

Innihald

3 stk rúllutertubrauð

2 dósir af grænum aspas

1 askja af beikonsmurost

2 öskjur af skinkusmurost

1 poki pizzaostur

2 bréf af skinku

salt og pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið beikonsmurost og skinkusmurost í pott yfir meðal háum hita og hrærið þar til osturinn hitnar og blandast vel saman. Hellið vatninu af aspasinum og blandið honum saman við ostablönduna. Ef ykkur finnst blandan of þykk er gott að setja örlítið af aspasvökva saman við. Skerið skinkuna í grófa bita og blandið saman við ásamt smá salti og pipar. Hærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið blönduna á milli þriggja rúllutertubrauða og rúllið þeim þétt upp. Setjið brauðin á bökunarplötu og dreifið osti yfir hvert brauð fyrir sig. Hitið í ofni þar til osturinn hefur náð að bráðna alveg. 

Verði ykkur að góðu!

 

Kveðja, Thelma
www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!