Thelma Þorbergsdóttir
5 ára Spiderman afmæli með meiru
28. mars 2014

5 ára Spiderman afmæli með meiru

Ég trúi því varla að það séu 5 ár liðin síðan þessi prins kom í heiminn! Og ég trúi því ekki að fyrir 5 árum hélt ég að lífið væri búið!! En það er svo aldeilis ekki búið skal ég segja ykkur, það er bara rétt að byrja og það sem þessi snillingur með meiru er búinn að kenna mömmu sinni er ómetanlegt. Ég viðurkenni þó að oft á tíðum hafa komið upp erfiðir tímar en við höfum náð að sigrast á þeim saman, ég og hann og já kannski pabbinn líka;). Kristófer blés á öll kertin á kökunni sinni alveg sjálfur og mikið sem við foreldrarnir vorum stolt af honum!

 Kristófer fékk að sjálfsögðu að ráða hvernig afmælið hans yrði og valdi hann Spiderman sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Við héldum þó ekki upp á afmælið hans fyrr en um miðjan mars því foreldrarnir voru svo uppteknir. Ég henti í eina Spidermanköku í einum hvelli ásamt meiru. Kristófer vildi ólmur hafa búningapartý og klæddist hann Spidermanbúning að sjálfsögðu og það komu nokkrir litlir Spiderman í afmælið sem var skemmtilegt ásamt prinsessum og öðrum fígúrum.

 

Hérna er afmæliskakan. Neðri kakan eru 2tveir botnar settir saman og efri kakan eru einnig tveir botnar settir saman, en minni. Matarlitirnir sem ég notaði eru gelmatarlitir, royal blue og rauður, svarti köngulóavefurinn er úr lakkrísreimum en hvíti er gerður úr smjörkreminu. Það þarf mikið af rauða litnum til að ná honum svona rauðum svo þið þurfið bara að prófa ykkur áfram og setja smá og smá í einu af litnum saman við kremið og hræra vel á milli. Spidermankertið og stjörnuljósið fékk ég í Partýbúðinni ásamt diskum og glösum í stíl. Á mínu heimili fær afmælisbarnið alltaf stjörnuljós ofan á sína köku og það vekur alltaf mikla lukku, meira að segja hjá Mr. Handsome.

 

Þessi kaka er alveg vel fyrir 40 manns og kláraðist auðviðtað ekki því maður er með svo margt annað á boðstólnum, en hverjum er ekki sama? Þetta þarf bara að lúkka vel fyrir krakkana og passa við afmælisþemað smiley

 

 

Ég byrjaði á því að setja tvo stærri botnana saman (ég notaði 24 cm hringlótt bökunarform) setti krem á milli botnanna og setti krem utan um alla kökuna til þess að festa hana saman. Setti kökuna svo inn í ísskáp þar til kremið náði að storkna. Gerði svo hið sama með eftir kökuna.

 

 

Síðan þarf að smyrja aðra umferð af kremi yfir kökuna og svo sprautaði ég köngulóavef með hvítu kremi og hringlaga litlum stút. Skellti rauðu kökunni á pappadisk fyrir kökur og setti ofan á bláu kökuna. Gerði köngulóavefinn þar með lakkrísreimum og setti kertið svo ofan á ásamt stjörnuljósi. Meðfram botnunum skreytti ég með sprautustút 1M.

 

Bollakökur í ísformi

Þessar kökur eru algjör snilld og mjög svo vinsælar í barnaafmælum. Það er ekkert mál að gera þessar kökur og eiginlega mun einfaldara en þið haldið.

 

Vanillubollakökur með súkkulaðibitum

15-20 stk.

120 g smjör við stofuhita

100 g sykur

150 g púðursykur

2 egg

180 g hveiti

2 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

1.5 dl mjólk

3 tsk vanilludropar

150 g dökkt súkkulaði, grófsaxað

 

Aðferð

Stillið ofninn í 180 gráður og raðið ísformunum. Hrærið smjör og sykur saman ásamt eggjum, einu og einu í senn og hrærið vel á milli. Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og hrærið. Bætið hveitiblöndunni saman við ásamt mjólkinni, smátt og smátt í einu og hrærið vel. Setjið vanilludropa og hrærið. Grófsaxið súkkulaðið og hrærið saman við deigið með sleif. Sprautið deiginu í ísformin og passið að fylla þau ekki alveg upp í topp eða rúmlega 2 kúfaðar msk. í hvert form. Bakið í 18-20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kælið kökurnar alveg áður en kreminu er sprautað á þær.

 

 

Þið þurfið kökuform, álpappír, ísform og sjúklega gott kökudeig.

 

 

Ég notaði meðalstóra ísskeið til þess að fylla formin og þá er nóg að setja eina skeið í hvert form.

 

 

Þið setjið álpappírinn yfir bökunarmótið og skerið gat fyrir ísformunum og stingið þeim svo ofan í, þannig haldast þau alveg föst á meðan kökurnar eru að bakast.

 

Svona líta kökurnar út eftir bakstur. Ég notaði vanillusmjörkrem á kökurnar og sprautaði því með sprautustút 1M og skreytti með marglituðu kökuskrauti frá kötlu.

 

Vanillukrem

250 g smjör við stofuhita

500 g flórsykur

2 msk mjólk

4 tsk vanilludropar

 

Skraut

Marglitað kökuskraut frá kötlu, sprautustútur 1M

 

Aðferð

Hrærið smjör þar til það er orðið ljóst og létt, bætið flórsykri saman við, smátt og smátt í einu þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið vanilludropum og mjólk saman við og hrærið vel þar til kremið verður mjúkt og slétt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið kremi á hverja köku, skreytið að vild.

 

 

Fyllt brauð að hætti Thelmu

Ég bara verð svo að deila þessari brauðuppskrift með ykkur, hún slær alltaf í gegn í afmælum og veislum hjá okkur. Snilldin við þessi brauð eru að þú getur sett hvað sem er inn í þau, fer bara eftir því hverjum þú ætlar að bjóða upp á þau.

 

 

Fyllt brauð að hætti Thelmu

 

1 kg hveiti

1 msk sykur

1 msk maldon salt

3 pakkar þurrger

½ lítri volgt vatn

 

Bakið við 220 gráður í 15-20 mín.

 

Fylling

Smurostur með pizzakryddi

Pepperoni

Skinka

Græn paprikka

Ostur

 

Fylling

Beikon smurostur

Skinka

Ostur

 

Aðferð

Blandið kveiti, sykri, salti og þurrgeri vel saman. Hellið svo vatninu rólega saman við og hrærið og hnotið örlítið þar til allt hefur fests vel saman. Hafið deigið í skálinni, setjið rakt og volgt viskastykki yfir skálina og látið deigið lyfta sér í rúma klukkustund. Stundum finnst mér gott að setja skálina ofan í volgt vatn í vaskinum, en þá set ég botnfylli af vatni.

 

Þegar deigið hefur lyft sér taki þið það úr skálinni og hnoðið saman. Munið að setja hveiti á borðið áður svo deigið festist ekki allt við. Deigið er örlítið seigt í fyrstu en það er allt í lagi. Skiptið deiginu upp í 4-6 búta, fer eftir því hvað þið ætlið að gera stór brauð og rúllið þeim út, tveimur bútum í einu.

 

 

Fletjið út deigið í langar breiðar ræmur, smyrjið smurostinum vel yfir, setjið þá fyllingu sem ykkur langar til og ostinn yfir.

 

Lokið brauðinu og festið hliðarnar og endana vel saman.

 

Festið svo endana af báðum ræmunum saman og fléttið því saman. Setjið brauðið á bökunarplötu með smjörpappír á og bakið í rúmar 15-20 mín. eða þar til brauðið er orðið gullbrúnt að ofan. Gott er að pensla brauðið með smá vatni áður en það er bakað.

 

Náði því  miður ekki að taka mynd af brauðinu þegar það var tilbúið enda kláraðist það svo fljótt!

 

Þangað til næst

Kveðja

Thelma

www.freistinggarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!