Ragnar Freyr Ingvarsson
Lamba chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó
13. nóvember 2017

Lamba chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó

Sumir pottréttir eru einfaldlega betri en aðrir - og chili con carne trónir þarna á toppnum með mörgum góðum uppskriftum eins og t.d. bolognese. Og alveg eins og bolognese þá finnst mér chili con carne vera uppskrift sem passar einstaklega vel þegar kólna fer í veðri og helst að það sé komin snjóhula yfir jörðina.

Ég hef margoft eldað chili con carne - meira að segja grænmetisútgáfu sem var déskoti ljúffeng - hægt er að lesa um hana hérna. En af einhverri ástæðu hef ég látið það vera að setja mína útgáfu af þessum rétti á netið - en bæti úr því núna.

Mér finnst gott að gera stóra chili con carne uppskrift í senn. Þá veit ég að það verður til afgangur, sem hægt er að frysta og þannig á maður til veislumáltíð í vændum þó að tíminn sé knappur - eins og það oft vill verða í aðdragandi hátíðanna sem framundan eru.

Lamba chili con carne með sýrðum rjóma, nachos og avocadó á köldu haustkvöldi

Mér finnst gott að gera þennan rétt talsvert heitan - hann verður betri fyrir vikið og stendur þannig betur undir nafni - en þar gegnir sýrði rjóminn hvað stærstu hlutverki, ekki bara sem bragðbætandi efni heldur hefur hann líka kælandi áhrif þannig að maka manns og börn svíður síður undan chilipiparnum.

 

Fyrir 4-6 (í þrjár máltíðir)

2 laukar

4 hvítlauksrif

5 cm engifer

3 rauður chilipipar

jómfrúarolía

4 tsk chiliduft

2 tsk broddkúmen

2 tsk kóríander

2 kanelstöng

3 lárviðarlauf

1 kg lambahakk

500 g nautahakk

1 dós chipotle salsa (hefði notað chipotlemauk en fann það ekki í búðinni)

4 dósir niðursoðnir tómatar

3 dósir blandaðar baunir í dós (t.d. nýrnabaunir, svartar baunir og brúnar baunir)

1,5 l kjúklingasoð

2 msk kakóduft

salt og pipar

 

sýrður rjómi

nachosflögur (eða tortilla)

rifinn ostur

ferskur kóríander

Sneiðið laukinn, hvítlaukinn, engiferinn og chilipiparinn.

Steikið í heitri olíu í stórum potti - nú verður tekið til hendinni. 

Merjið kóríanderfræ og broddkúmen í mortéli og bætið út í pottinn ásamt chiliduftinu.

Næst lárviðarlauf og svo heill kanill.

Svo er að setja kjötið - og brúna það vandlega. Ekki gleyma að salta og pipra.

Ég rótaði í búrinu hjá mér og fann nokkrar tegundir af tómötum, bæði heila og maukaða. Kann þó alltaf betur við heila - finnst þeir yfirleitt gefa manni betra bragð. 

Setti svo 1,5 l af kjúklingasoði. 

Ég ætlaði að nota chipotle mauk - en það var ekki til í búðinni svo ég keypti þetta í staðinn - og ekkert að því - þetta var líka ljúffengt. 

Fullt af tabaskó!

Kakóið er eiginlega leynigesturinn í þessa kássu og gefur henni ljúffenga breidd.

Það þarf að svo að sjóða kássuna niður í um sex kortér svo hún verði þykk og girnileg.

Skolið baunirnar og bætið þeim svo út í kássuna. Það þarf ekki nema 20 mínútur til að hita þær í gegn.

Alveg að koma.

Ég nota alltaf 18% rjóma - mér finnst hann langbestur - auk þess að bæta matargerðina þá hefur hún líka kælandi áhrif eins og ég nefndi áðan. 

Svo er bara að raða þessu saman á disk. 

Ég hafði avókadóið með - sem er auðvitað ljúffengt - en aðallega vegna þess hvað ég var undrandi yfir því að fá svona fallegt avókadó - þau virðast ekki vaxa á trjánum hér á Fróni! 

 

Þetta var dásamlega ljúffengt og saðsamt. 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!