Ragnar Freyr Ingvarsson
Dásamlegir djúpsteiktir ostar
11. maí 2017

Dásamlegir djúpsteiktir ostar

 

Sumar veislumáltíðir eru einfaldlega betri en aðrar. Og þessi var alveg einstaklega ljúffeng. Flestir sem lesa bloggið mitt vita hversu langt ást mín á smjöri, rjóma og ostum nær. Hún nær langt. Og þessa tvo rétti má nota bæði sem forrétti, góðan hádegisverð eða jafnvel sem eftirrétt.

 

Og þessi réttur er ákaflega einfaldur. Fá hráefni - blandað saman á einfaldan hátt, djúpsteikt (syndin ljúfa) og svo bara að njóta!

 

Dásamlegir djúpsteiktir ostar: Gullostur með hvítlauksbrauði og sultu og Stóri Dímon með avókadó og sætu sinnepi

 

Hráefnalisti:

 

Fyrir fjóra til sex

 

1 Gullostur

1 Stóri Dímón

4 egg

1 bolli hveiti

1 bolli brauðmylsna

salt og pipar

 

4-6 brauðsneiðar

2 msk. hvítlauksolía

1 avókadó

blandað salat

3-4 tsk. sinnep

3-4 tsk. sulta

 

 

Ég hef margsagt það á blogginu mínu að Gullostur er uppáhalds osturinn minn - og það hefur ekki breyst ennþá!

Og í öðru sæti er Stóri Dímon - sem er gerður á sambærilegan hátt - nema hvað hann er blámygluostur. 

Þetta er bara mynd til að dást að! Gullostur og Stóri Dímon eru sannarlega reisulegir ostar. 

Skerið Gullostinn í bita. Hjúpið fyrst með bragðbættu hveiti (salti og pipar), veltið svo upp úr eggi, svo mylsnu og svo aftur upp úr eggi og mylsnu til að fá þéttan hjúp.

Djúpsteikið nokkra í einu - hafið þá aðskilda þannig að þeir límist ekki saman. Ég steikti þessa við 170 gráður í djúpsteikingarpottinum sem ég var að fá mér! 

Steikið þá þangað til að þeir eru fallega gullinbrúnir.

Gullostinn bar ég fram á djúpsteiktu brauði með bláberja- og púrtvínssultu.

Osturinn rann út úr hjúpnum og yfir brauðið. 

Snædís kunni vel að meta þessa dásemd. 

Sama var gert við Stóra Dímon nema hvað hann skar ég niður í stangir. Hjúpaði á sama hátt og Gullostinn og steikti þar til hann varð gullinbrúnn.

Tyllti smá sinnepi á ostinn og bar fram með avókadósneiðum og salati. 

Osturinn vall út!

 

Og allir brostu út að eyrum og stundu af gleði!

 

Bon appetit!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!