Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Veisla með sumarþema
16. júlí 2018

Veisla með sumarþema

Það er tilvalið að lyfta boðinu svolítið upp og bjóða upp á litríkt sumarþema.  Litadýrðin skiptir öllu máli og mikilvægt að velja skæra og fallega liti fyrir skreytingar, dúka, glös og veitingarnar.  Þemað hentar við ýmis tilefni bæði fyrir fullorðna og börn. 

Kleinuhringir með súkkulaði

Uppskrift um 22 stk:

150 g hveiti

40 g kakó

½ tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

 Salt á hnífsoddi

60 g púðursykur

2 msk. sykur

60 g smjör (brætt)

1 tsk. vanilludropar

2 stk. egg

1 dós Óskajógúrt með jarðarberjum (180 g)

 

Súkkulaðihjúpur:

80 g mjólkursúkkulaði

80 g suðusúkkulaði

6-8 msk. rjómi frá Gott í matinn

Kökuskraut til að skreyta hvern kleinuhring.

 

Aðferð:

Hveiti, kakó, lyftiduft, matarsódi og salt sett saman í skál.

Brætt smjör, jógúrt, vanilludropar og egg blandað vel saman og þurrefnunum síðan blandað saman við . 

Blandan er sett í sprautupoka og síðan sprautuð í sérstök kleinuhringjamót.  Það er einnig hægt að búa til kleinuhringjalögun með því að nota bollakökubökunarmót og nota álpappír til að gera gat í hvern hring. 

Kleinuhringirnir eru bakaðir við 170°C  blástur í um 12-15 mínútur.

Súkkulaðhjúpurinn er búinn til með því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði og hræra rjóma saman við til að þynna hjúpinn. 

Hverjum og einum kleinuhring er dýft í súkkulaðihjúpinn og kökuskrauti sáldrað yfir. 

 

Vanillukaka

Uppskrift fyrir 3 botna 26 cm:

470 g  hveiti

4 tsk. lyftiduft

250 g smjör

1 tsk. salt

500 g sykur

2 tsk. vanilludropar

4 stk. egg

360 ml nýmjólk (við stofuhita)

 

Vanillukrem:

500 g smjör

820 g flórsykur

4 msk. rjómi frá Gott í matinn

3 tsk. vanilludropar

Matarlitur (þarf ekki)

Marsbitar settir með kreminu. 

Kökuskrautsperlur notaðar til að skreyta kökuna

 

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175°

Hveiti, lyftiduft og salt sett í skál og sett til hliðar.

Smjör, sykur og vanilludropar sett í hrærivélaskál og hrært á meðalhraða í 3 mínútur eða þar til deigið er létt og ljóst.

Egg sett út í, eitt og eitt í einu og hrært vel á milli.

Hveitiblandan sett  varlega saman við deigið og að lokum mjólkin. Blandið vel en varlega saman.

Deigið er sett í smurð hringlaga bökunarmót.

Bakað í um 30 mínútur við 175°C gráða hita. 

Kakan er kæld og kremið búið til á meðan. 

Smjör, flórsykur og vanilludropar eru saman í hrærivélaskál og hrært vel saman.

Rjóminn er settur í lokinn og hrærður saman við.  Því lengur sem kremið er hrært, því hvítara verður það.

Hluti af kreminu er litaður bleikur. Afgangurinn af hvíta kreminu er þá settur í skál til hliðar.

Kakan er smurð með bleika kreminu og marsbitunum sáldrað yfir hvert lag. 

Kakan er smurð að utan með hvítu kremi og síðan er afgangurinn af bleika kreminu smurður hér og þar á kökunni til að fá skemmtilegt og litríkt útlit. 

Kökuspaði er notaður til að búa til renndur á kremið.  Þá er spaðinn renndur meðfram kökunni í hringi, lag eftir lag. 

Kakan er skreytt með fíngerðu perluskrauti.

 

Það er vel hægt að nota deigið til að búa til bollakökur en þá er deigið sett í bollakökumót og bakað í um 22 mínútur.  Vanillukremið er notað til að skreyta bollakökurnar. Stjörnustútur 1m er notaður til að sprauta kreminu. 

 

Ananas marengs

Uppskrift:

8 stk. eggjahvítur

440 g sykur

1 tsk. lyftiduft

Matarlitur (grænn, gulur)

 

Fylling:

½ l rjómi frá Gott í matinn

1 stk. epli – brytjað í litla bita

50 g af ananas – skorinn smátt og vökvinn sigtaður

3 stk. kókósbollur

 

Aðferð:

Eggjahvíturnar eru þeyttar og sykrinum blandað saman við smám saman þar til blandan er stífþeytt. 

Lyftidufti er blandað varlega saman við í restina. 

1/3 hluti marengsblöndunnar er settur í aðra skál og lituð með grænum matarlit. 

Hinn hlutinn er litaður með gulum matarlit. 

Ananasmót er teiknað á smjörpappír og gulu marengsblöndunni sprautað með frönskum sprautustút á pappírinn.

Græna marengsblandan er sett í sprautupoka og henni sprautað á  smjörpappírinn með rúnuðum sprautstúti eða engum stút. 

Marengsbotnarnir eru bakaðir við 130°C hita í 1 ½ klst. 

Rjóminn er þeyttur, eplin skorin í litla bita og ananasinn skorinn í bita, sigtaður og blandaður saman við rjómann. 

Rjómablandan er sett yfir marengsbotninn og kókósbollur kramdar yfir. Efri botninn er síðan settur yfir. 

 

Flamingómarengsfuglar


Það er vel hægt að móta ýmislegt úr marengsblöndu. Það er til dæmis tilvalið að móta þessa fallegu flamingófugla með því að lita marengsblönduna bleika og nota 1M stjörnustút til að móta þá.  Súkkulaðihnappur er notaður fyrir gogg og sérstök sykuraugu notuð fyrir augað.  Flamingófuglarnir eru fallegir einir og sér en kemur líka mjög vel út að þeyta rjóma, brytja jarðarber og kíwí og setja yfir . 

 

 

Vatnsmelónupinnar

1 lítil vatnsmelóna

Plastprik

 

Vatnsmelóna er skorin í sneiðar og síðan í litla þríhyrninga.  Plastpriki er síðan stungið í hvern þríhyrning. Það kemur fallega út að setja pinnana á disk eða stand. 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!