Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Súkkulaði bollakökur með marskremi
04. maí 2018

Súkkulaði bollakökur með marskremi

Það má með sanni segja að það er kraftur í þessum. Súkkulaðibragðið nýtur sín í þessum dúnmjúku bollakökum. Það sem er sérstakt við uppskriftina er að það er Kókómjólk í henni. Það passar fullkomlega.  Marskremið er virkilega bragðgott og passar vel við bollakökurnar.  Ég mæli með að þið prófið þessar fyrir næsta tilefni.

Uppskrift fyrir um 24 bollakökur

240 g sykur

100 g smjör

2 stk. egg

120 ml Nýmjólk

120 ml Kókómjólk

2 tsk. vanilludropar

200 g hveiti

40 g kakó

1 ½ tsk. lyftiduft

100-150 g súkkulaðidropar

 

Krem:

250 g smjör

500 g flórsykur

4 msk. kakó

2 stk. Mars – brædd með 2 msk. rjóma

1 tsk. vanilludropar

½ dl rjómi frá Gott í matinn

 

Aðferð:

Smjör og sykur er hrært vel saman og eggjunum síðan blandað saman við. 

Hveiti, lyftiduft og kakó blandað saman og hrært vel saman við.

Kókómjólk, mjólk og vanilludropum er hellt saman við.

Súkkulaðidropum er blandað varlega saman við í restina. 

Bollakökudeigið er sett í form og síðan bakað við 170 °C hita í um 20-25 mínútur. 

Kremið er búið til meðan bollakökurnar eru að bakast og kólna að loknum bakstri. 

Mars súkkulaðistykkin eru brædd í örbylgjuofni ásamt 2 msk. rjóma. Hrært vel saman og leyft að kólna örlítið.

Öllum hráefnum nema rjómanum er síðan blandað saman í hrærivélaskál og þeytt vel.  Rjómanum og mars súkkulaðinu er blandað saman við í lokinn og hrært varlega saman við. 

Bollakökurnar eru skreyttar með kreminu.  Stjörnustúturinn 1M er notaður til að búa til rósir og sykurmassaskraut sett á hverja rós. 

Njótið þess að borða þessar bragðgóðu bollakökur með ískaldri mjólk. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!