Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Skinkuhorn
12. janúar 2018

Skinkuhorn

Það er dásamlegt að gæða sér á gómsætum skinkuhornum. Það er einhvern veginn þannig með skinkunhornin að þau passa við hvaða tilefni sem er.  Nesti í skólann, millibiti, hádegissnarl, í kaffitímanum og síðan við hvert tilefni á fætur öðru. Þau eru hversdags en samt svo fín þegar þau eru borin fram í veislum.

Skinkuhorn spiluðu til dæmis stórt hlutverk í fermingunni minni en í hvert sinn sem fyllt var á skinkuhornin hurfu þau. 

Hér er uppskrift sem kemur mjög vel út. Fyllingin dásamleg þar sem beikonsmurostur og skinkumyrja fylla hornin af dásamlegu bragði. Mozzarellaosturinn er síðan bræddur ofan á.

Uppskrift um 30 stór horn

250 ml mjólk

300 ml vatn

130 g smjör

35 g pressuger (má einnig nota þurrger, um 15 g)

3 tsk. salt

1 msk. sykur

1 kg hveiti

 

Fylling:

Smurostur með beikoni

Smurostur skinkumyrja

Mozzarella rifinn ostur frá Gott í matinn

Skinka – skorin smátt

 

Aðferð:

Mjólk, vatn og smjör er hitað í potti. Blöndunni er leyft að kólna örlítið þar til hún er ylvolg.

Sykur, salt og pressuger blandað saman við og blöndunni leyft að standa í um 5 mínútur eða þar til hún er aðeins farin að freyða eða þykkjast.

Hveitið er að lokum blandað saman við. Deigið hnoðað vel og síðan leyft að lyfta sér á heitum stað í um 1 klst. 

Deigið er skipt í tvennt, flatt út og skorið í tígla. 

  

Í hvern tígul er sett beikonsmurostur, skinkumyrja, rifinn ostur og skinka. 

Tíglunum er rúllað upp í horn, penslaðir með eggi og mjólkurblöndu (hrært saman áður en penslað er). 

Rifnum Mozzarellaosti er sáldrað yfir hvert horn.

 

Hornin eru bökuð við 180°C hita (blástur) í um 15 mínútur eða þar til þau eru bökuð í gegn. 

Njótið vel!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!