Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Djöflakaka með Dumle súkkulaðihjúp
04. október 2017

Djöflakaka með Dumle súkkulaðihjúp

Hér er á ferðinni Djöflakaka sem fær bragðlaukana til að kitla. Það kemur fyrir að það sæki á mann hungurtilfinning í góða súkkulaðiköku. Það er einmitt þá sem maður vill grípa í skothelda uppskrift sem svíkur engan. Þessi djöflakaka bráðnar í munninum og skilur eftir mjög gott súkkulaðibragð. Það er hægt að leika sér með útfærsluna á kökunni. Bæði er hægt að gera hana hversdagslega með því að setja hana í skúffukökumót eða baka tvo til þrjá botna og skreyta. Kakan hentar mjög vel fyrir saumaklúbbinn. 

Djöflakaka með Dumle súkkulaðihjúp

Uppskrift fyrir 3 súkkulaðibotna

165 ml soðið vatn

80 ml mjólk

50 g kakó

150 g smjör

300 g sykur

1 tsk. vanilludropar

210 g hveiti

1 tsk. matarsódi

½ tsk. salt

3 stk. egg

 

Smjörkrem:

300 g smjör

600 g flórsykur

150 g brætt súkkulaði

2 msk. síróp

2 msk. vanilludropar

1 stk. egg

 

Dumle súkkulaðihjúpur

200 g rjómasúkkulaði

15 stk. dumle karamellur

5-6 msk. rjómi

 

Aðferð: 

1. Ofninn er hitaður upp að 160°C hita.

2. Vatnið og mjólkin er hitað að suðu og kakóinu blandað saman við. Hrært vel saman og leyft að kólna.

 

3. Smjör og sykur er þeytt vel saman. Eggjunum bætt út í einu og einu. Vanilludropunum er síðan blandað saman við.

4. Hveiti, matarsódi og salt er sett í skál og blandað saman við sykurblönduna.

5. Kakóblöndunni er að lokum hrært út í.

6. Deigið er sett í þrjú smurð bökunarform um 22-24 cm.

7. Bakað við 160°C blástur í 30 mínútur eða þar til botnarnir eru bakaðir í gegn.

8. Meðan kakan kólnar er smjörkremið gert klárt. Öll hráefnin eru sett í skál og hrærð vel saman. 

 

9. Smjörkremið er sett á milli botnanna og utan á kökuna.

10. Dumle hjúpurinn er búinn til með því að hita súkkulaði, karamellur og rjóma saman. Hjúpnum er síðan hellt yfir kökuna. Mjög gott að kæla hana áður en hjúpnum er hellt yfir.

 

Það kemur einstaklega vel út að skreyta kökuna með Nóa kroppi og jarðarberjum.

 

Njótið!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!