Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Brauðréttur með ostafyllingu og snakki
18. júní 2018

Brauðréttur með ostafyllingu og snakki

Mér finnst brauðréttir alltaf hitta í mark þegar kemur að því að gleðjast með öðrum og njóta dásamlegra veitinga. Þessi réttur er algjör snilld, þó ég segi sjálf frá en hann tekur mjög stuttan tíma að undirbúa og hita. Rétturinn samanstendur af pylsubrauði, ostafyllingu, rifnum osti og snakki. 

Uppskrift:

10 stk. pylsubrauð – skorin í tvennt

Fylling:

10-15 stk. sveppir

1 stk. gul paprika

1 stk. rauð paprika

1 stk. mexíkóostur, rifinn

1 stk. smurostur með sveppum

1 pk skinka

½ l rjómi frá Gott í matinn

2 stk. grænmetisteningar

30 g smjör – til að steikja grænmetið. 

Ofan á:

1 poki rifinn mozzarellaostur frá Gott í matinn

1 snakkpoki

Aðferð: 

Grænmetið er skorið í smáa bita, sett á pönnu og steikt upp úr smjöri ásamt skinkubitunum.

Smurostur, rjómi, mexíkóostur (gott að rífa ostinn niður) og gænmetisteningar hitaðir í öðrum potti þar til allt hefur bráðnað og samlagast.

Pylsubrauðin eru skorin í tvennt, þannig að tveir ,,bátar” myndast. Fyllingin sett ofan á hvern bát og rifinn ostur þar yfir.

Þá er hver bátur skorinn í þrennt en reynt að halda löguninni.

Hitað í ofni við 180°C hita í 5 mínútur, tekið út, snakkið sett yfir og hitað aftur í um 3 mínútur.

Sett á fallegan bakka og borið fram. 

Njótið!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!