Hjördís Dögg Grímarsdóttir
Áramótahugmyndir
29. desember 2017

Áramótahugmyndir

Áramótin eru yndisleg tímamót og gaman að gleðjast með sínum nánustu. Veit fátt skemmtilegra en að bjóða til veislu og njóta stundanna með fólkinu mínu.  Hér er ég búin að skreyta í anda áramótanna og útbúa gómsætar veitingar sem auðvelt er að framkvæma með stuttum fyrirvara. Nú er ekkert eftir nema að hita upp ofninn og framkalla kökusprengjur á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár. 

 

Frönsk súkkulaðiáramótakaka

Það er alltaf svo sparilegt að bera fram franska súkkulaðiköku, sígilt og þykir alltaf gott. Þeytti rjóminn gerir mikið og sæt jarðarber. Þessi uppskrift er einföld en bragðgóð og skreyting kemur skemmtilega út yfir áramótin. 

 

Uppskrift:

130 g dökkt súkkulaði

150 g rjómasúkkulaði

70 g sykur

4 stk. egg – aðskilin

2 msk. hveiti

Salt á hnífsoddi

1 tsk. vanilludropar

 

Súkkulaði Ganache:

150 g rjómasúkkuklaði

½ dl rjómi frá Gott í matinn

 

Skreyting:

Hvítt marsípan/sykurmassi

 

Aðferð:

Smjör og súkkulaði brætt í skál yfir vantsbaði. Hrært stöðugt í þar til allt er bráðið.

Skálin er tekin af hitanum og sykrinum er blandað saman við ásamt eggjarauðunum og vanilludropum.

Eggjahvíturnar eru þeyttar ásamt salti og síðan blandað varlega saman við súkkulaðiblönduna. 

Hveitinu er síðan blandað saman við að lokum. 

Deigið er sett í smurt mót. Mjög gott að nota smelluform, smyrja það og setja bökunarpappír í botninn. 

Kakan er bökuð við 180°C hita (yfir og undirhita) í um 30 mínútur (fer eftir ofninum)

Kakan er tekin út úr ofninum og hvolft á plötu þakta bökunarpappír eða þann kökudisk sem á að nota og henni leyft að kólna.

Súkkulaði og rjómi eru hitað þar til allt hefur samlagast, hrært vel í og síðan hellt yfir kökuna. 

Kakan er skreytt með tölustöfum sem gerðir eru úr marsípani, einnig hægt að nota sykurmassa. Tölustafirnir eru gerðir með sérstökum tölustafamótum. 

 

Kemur mjög vel út að bera kökuna fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum. 

Njótið!

 

Áramótabollakökur með kampavínskremi

Þessi uppskrift er þétt og silkimjúk. Kampavínið gerir uppskriftina sparilega og því tilvalið að bjóða þær í kringum áramótin.

 

Uppskrift:

225 g sykur

120 g smjör

3 stk. eggjahvítur

1 tsk. vanilludropar

250 g hveiti

¼ tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

120 g sýrður rjómi frá Gott í matinn

100 ml kampavín – Má sleppa og setja t.d. sprite í staðinn. 

 

Krem:

250 g smjör

400 g flórsykur

4 msk. rjómi frá Gott í matinn

2 tsk. vanilludropar

2 msk. kampavín

Matarlitur – ekki nauðsynlegt

 

Skreyting:

Fíngerðar kökuskrautsperlur

 

Lakkríssósa:

1 poki bingókúlur

100 g rjómasúkkulaði

6 msk rjómi frá Gott í matinn

 

Aðferð:

Smjör og sykur er þeytt saman í hrærivélaskál.

Eggjahvítum og vanilludropum blandað saman við.

Hveiti, lyftidufti og matarsódi er sett saman í skál og síðan bætt saman við smjörblönduna.

Sýrða rjómanum og kampavíninu er að lokum bætt út í. Hrærið varlega í deiginu.  

Deigið er sett í muffinsform. Mjög gott að hafa í huga að fylla þau að hálfu en þannig er auðveldara að skreyta kökurnar. 

Bollakökurnar eru bakaðar við 180 °C hita (yfir og undir hita) í um 20 mínútur eða þar til þær eru bakaðar í gegn. 

Til að búa til kremið er öllum hráefnunum nema rjómanum blandað saman í hrærivélaskál. Kremið þeytt vel með þeytaranum, því lengur sem kremið er þeytt því hvítara verður það og léttara í sér.  Að lokum er rjómanum blandað saman við ásamt matarlit ef ætlunin er að nota hann. 

Kökurnar eru skreyttar með til dæmis sprautustútnum 1M en þannig kemur fallegur turn. Hver kaka er síðan skreytt með fíngerður kökuskrauti.  

Það kemur einnig mjög vel út að setja örlítið af lakkríssósu á kökurnar en lakkríssósan er gerð þannig að öll hráefnin eru sett í pott og þau hituð þar til allt hefur samlagast. 

 

Njótið!

 

Kirsuberja skyrréttur

Snilld að geta gert rétt rétt fyrir veisluna og slegið samt í gegn.  Þessi er einmitt einn af þeim.  Tekur enga stund og skemmtilegur á borði. 

 

Uppskrift:

Hraunbitar

1 dós Ísey skyr dökkt súkkulaði og vanilla

1 dós Ísey skyr vanilla

300 ml rjómi frá Gott í matinn – þeyttur

Kirsuberjasósa – tilbúin í krukku eða fernu

Lakkríssósa – sjá uppskrift

 

Lakkríssósa:

1 poki bingókúlur

100 g rjómasúkkulaði

6 msk. rjómi frá Gott í matinn

 

Aðferð:

Allt sett saman í pott og hitað þar til allt hefur samlagast.

Rjóminn er þeyttur og skyri blandað saman við.

Hraunbitarnir eru muldir og settir í botninn á glasi/móti/skál.

Skyrblandan er sett yfir mulninginn.

Hraunbitamulningur þar yfir ásamt lakkríssósu.

Skyrblandan er því næst sett yfir.

Kirsuberjasósunni er þá hellt yfir þar til búið er að þekja glasið/mótið/skálina.

Hraunbitamulningur er notaður til að skreyta. 

Njótið!

 

Áramótasnittur

Hægt að leika sér á marga vegu með dýrindis osta og gott hráefni. 

Hugmynd 1:

Rautt pestó, rjómaostur með hvítlauk, parmaskinka, döðlubiti og vínber.

Hugmynd 2:

Chillisulta, Kastala ostabiti, pestasíuhunang og vínber. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!