Helena Gunnarsdóttir
Uppáhalds salöt á þrjá vegu
22. júní 2016

Uppáhalds salöt á þrjá vegu

Hér eru samankomin þrjú salöt sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég geri þessi oft yfir sumartímann og þau eru dásamleg með grillmat. Hlutföllin í salötunum eru algjört aukaatriði. Þið gerið bara eins mikið og ykkur finnst gott og þurfið fyrir þann fjölda af fólki sem þarf að metta. Sumir vilja líka meira eða minna af einhverju hráefni, það er nú það skemmtilega við svona salöt. Það er ekki hægt að eyðileggja neitt. Ég skora á ykkur að prófa þessar samsetningar!

Tómata- og rauðlauks salat með blámygluosti

Klettasalat

Tómatar (því fleiri tegundir því betra)

Rauðlaukur

Blámygluostur, t.d. Blár Kastali eða gráðaostur

Ólífuolía

Rauðvínsedik

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

 

Í þessu salati er klettasalatið neðst, því næst eru alls konar tómatar gróft skornir. Þunnt skorinn rauðlaukur er lagður í skál og dálitlu rauðvínsediki hellt yfir (2 msk duga á einn rauðlauk). Leyfið þessu að standa í 5-10 mínútur og setjið svo yfir salatið ásamt edikinu ef ykkur finnst það gott. Toppið salatið með vel völdum gráðaosti eða blámygluosti, hann passar fullkomlega við sæta tómatana og pikklaðan rauðlaukinn. Dropið ólífuolíu yfir allt saman og kryddið með sjávarsalti og möluðum svörtum pipar. 

Einfalt salat eða forréttur með melónu og hráskinku

Hráskinka

Melóna, gjarnan vel þroskuð kantalópa

Mozzarella kúla

Salatblöð að eigin vali

Ólífuolía

Sítróna

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

 

Hráskinkan er vafin um kantalópusneiðar, gott blaðsalat sett í botninn á fati eða stórum diski. Mozzarella kúlan rifin yfir salatið. Kryddað með sjávarsalti og pipar, dálítilli ólífuolíu hellt yfir ásamt "dassi" af safa úr sítrónu. Að síðustu eru hráskinkuvafðar melónusneiðarnar lagðar yfir. 

 

Grískt salat með fetaosti, vatnsmelónu og myntu

Klettasalat

Vatnsmelóna, skorin í stóra kubba

Fetakubbur, gróft skorinn

Svartar ólífur, heilar

Rauðlaukur, þunnt skorinn

Ólífuolía

Rauðvínsedik

Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Nokkur myntublöð, smátt skorin

 

Öllu blandað saman. Smávegis af rauðvínsediki og ólífuolíu hellt yfir, kryddað með salti og pipar. Dreifið smá myntu yfir í lokin. Einfalt og slær alltaf í gegn. Passar einstaklega vel með grilluðu lambakjöti. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!