Helena Gunnarsdóttir
Tilkomumikill eftirréttur á innan við 30 mínútum
04. mars 2015

Tilkomumikill eftirréttur á innan við 30 mínútum

Uppskriftin að þessu sinni er sennilega einn af tilkomumestu eftirréttum sem hægt er að gera á undir 30 mínútum. En jafnframt er þetta eftirréttur sem fólk stynur yfir og heldur að maður hafi eytt hálfum deginum í eldhúsinu. Dúnmjúk, létt og leikandi súkkuaði, mascarpone- rjómafylling á stökkum súkkulaðibotni getur seint klikkað. Þessi slær alltaf í gegn hjá mínu fólki, sex ára og uppúr!

Súkkulaði-mokka mascarpone tarte

 

250 gr súkkulaðikex (gott að nota t.d. oreo eða annað kremkex)

50 gr brætt smjör

250 gr mascarpone ostur við stofuhita

2,5 msk hreint kakó

1 tsk instant kaffiduft leyst upp í 2 tsk af heitu vatni

2 tsk vanilluextract

1 dl flórsykur

¼ tsk salt

5 dl rjómi

 

Aðferð:
Myljið kexið mjög smátt í matvinnsluvél, bætið smjörinu saman við og blandið vel saman. Þrýstið í lausbotna bökuform eða í annað mót og kælið. Ég nota lausbotna bökuform sem er um 26 cm í þvermál. Þeytið saman mascarpone, kakó, kaffi, vanillu, flórsykur og salti þar til blandan er silkimjúk. Blandið rjómanum saman við og þeytið áfram. Gætið þess að skrapa vel botninn og hliðarnar á skálinni svo allt blandist vel. Þeytið þetta saman þar til áferðin er eins og á stífþeyttum rjómi. Dreifið úr mascarpone blöndunni yfir súkkulaðikex botninn og kælið í um 1 klst áður en þið berið kökuna fram. Þetta má líka gera daginn áður. Skreytið með rifnu súkkulaði og jarðarberjum. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!