Helena Gunnarsdóttir
Þrjár sumarlegar uppskriftir
19. apríl 2017

Þrjár sumarlegar uppskriftir

Mexíkóskar morgunverðar vefjur með eggjahræru

(fyrir 2 vefjur)

Ég geri þessar vefjur reglulega, þær eru alltaf jafn vinsælar og ekki síðri kaldar daginn eftir. Upplagt nesti fyrir göngu- eða skíðaferðina.

 

4 egg

4 msk. rjómi

Salt og pipar

2 tómatar, fræhreinsaðir og skornir í litla bita

2-3 vorlaukar, smátt saxaðir

1 msk. smjör

1 dl rifinn mozzarella ostur

Heilhveitivefjur, salsasósa, sýrður rjómi og grænt salat

Aðferð: Pískið eggin, með mjólk, salti og pipar eftir smekk og bætið grænmetinu saman við. Bræðið smjör á pönnu við vægan eða meðalhita og hellið eggjahrærunni út á. Steikið eggin þar til næstum elduð í gegn. Bætið þá ostinum út á pönnuna og hrærið saman þar til osturinn er bráðnaður og eggin elduð. Takið af hitanum. Galdurinn við góð hrærð egg er að elda þau hægt og rólega við vægan hita. Leggið salatblað á heilveitivefju, smyrjið dálitlum sýrðum rjóma og salsasósu ofan á og setjið svo helminginn af eggjahrærunni innan í. Vefjið þétt upp og skerið í tvennt eða borðið í heilu lagi. 

Buffaló kjúklingasalat með himneskri gráðaostasósu

Hér er á ferðinni réttur sem er í sérlegu uppáhaldi hjá mér. Ég elska þessa samsetningu á sterkri buffaló sósunni við gráðaostinn. Blanda sem að mínu mati getur ekki klikkað.

2 eldaðar kjúklingabringur, t.d grillaðar

4 msk. Buffalo Hot sauce

2 msk. smjör

Gott salat, t.d Lambhagasalat

3 vorlaukar

3 tómatar

Gráðaostur eftir smekk

 

Aðferð: Byrjið á að elda kjúklingabringurnar í gegn. Rífið eða saxið salatið og leggið á fat eða stóran disk. Saxið tómatana og vorlaukinn frekar smátt og dreifið yfir salatið. Bræðið smjörið í litlum potti og hellið buffaló sósunni yfir og pískið vel saman við smjörið. Hellið sósunni svo yfir eldaðar kjúklingabringurnar og veltið þeim vel upp úr sósunni. Skerið bringurnar svo í þunnar sneiðar og leggið ofan á salatið. Myljið gráðaostinn að lokum yfir.

Gráðaostasósa:

3 msk. gráðaostur

2 msk. majónes

2 msk. sýrður rjómi

1 msk. hvítvínsedik

Mjólk eða rjómi til að þynna sósuna, um 2-3 msk.

Örlítið sjávarsalt og svartur pipar

 

Aðferð: Stappið gráðaostinn í skál með gaffli og blandið majónesi, sýrðum rjóma, ediki, salti og pipar saman við. Þynnið með mjólk þar til sósan er eins og þið viljið hafa hana. Ég miða við að sósan sé á þykkt við súrmjólk eða þar um bil. Hellið svolitlu af sósunni yfir salatið og berið restina fram með því. Svo er gott að fá sér smá auka buffaló hot sauce yfir ef maður vill hafa salatið vel sterkt. 

Grilluð þriggja osta pizza með parmaskinku og chillisultu

Fullkominn réttur í grillveislunni í sumar. Einstaklega fljótlegur en mikill “vá-faktor” sem fylgir.

Upplagt að velja þá osta sem manni þykja bestir. Ég mæli með að nota einn bragðmikinn ost eins og Tind, Óðals eða sterkan Gouda, einn mildari hvítmygluost eins og Gullost sem er í uppáhaldi hjá mér og einn blámygluost, bláan Kastala eða gráðaost fyrir þá sem vilja fara alla leið. Fullkomin blanda!

 

1 stk. tilbúinn stór pizzabotn

2 msk. ólífuolía

Salt og pipar

Þrjár tegundir af ostum, t.d. Tindur, Gullostur og Blár kastali.

5 sneiðar parmaskinka

Ferskt basil

Chillisulta

 

Aðferð: Byrjið á að pensla pissubotninn með ólífuolíu, kryddið með salti og pipar. Setjið á grillið eða í 220 gráðu heitan ofn í 5 mínútur. Skerið eða rífið ostana niður og dreifið ríkulega yfir botninn ásamt sneiðum af parmaskinku. Bakið áfram í um 7-8 mínútur eða þar til ostarnir hafa bráðnað. Toppið með fersku basil og chillisultu. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!