Helena Gunnarsdóttir
Spagettí með risarækjum í hvítvíns rjómasósu
27. júlí 2018

Spagettí með risarækjum í hvítvíns rjómasósu

Að þessu sinni býð ég upp á uppskrift að sérlega sparilegu og ljúffengu risarækju pasta sem ég hef gert oftar en ég get talið. Við borðum hann þó einhverra hluta vegna bara á sumrin, það er eitthvað svo sumarlegt við sjávarrétta pasta. Og kalt hvítvín.. Þetta er réttur sem sómir sér vel í matarboði eða bara á fimmtudagskvöldi fyrir fjölskylduna.

Spagettí með risarækjum í rjómalagaðri hvítvínssósu (fyrir fjóra)

500 g spagettí

500 g hráar risarækjur, skelflettar og hreinsaðar

3 skallottulaukar, smátt saxaðir

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

½ tsk. þurrkaðar chilliflögur eða ½ ferskur chilli smátt saxaður (má sleppa)

1 glas hvítvín (2 dl)

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

250 ml rjómi frá Gott í matinn

Fersk steinselja og sítróna

Smjör, ólífuolía og salt og pipar

 

Aðferð:

 

Byrjið á að setja vatn í stóran pott og sjóða pastað eftir leiðbeiningum á umbúðum. Á meðan það sýður er sósan gerð. 

Kryddið risarækjurnar með salti og pipar og steikið á vel heitri pönnu upp úr smjöri og smá olíu, takið af pönnunni og setjið til hliðar. Setjið laukinn, hvítlaukinn og chilli á pönnuna og mýkið aðeins í 2-3 mínútur, kryddið með salti og  smá pipar.

Hellið hvítvíni yfir, hleypið suðunni upp og látið sjóða niður í nokkrar mínútur eða þar til vínið hefur minnkað um helming. Hellið tómötunum út á pönnuna ásamt rjóma, salti og pipar, hleypið suðunni upp og smakkið til.

Skerið rækjurnar í hæfilega stóra munnbita og setjið út í sósuna. Saxið steinseljuna og setjið út í. Setjið pastað að lokum saman við og blandið vel saman.

Ef sósan er of þykk er gott að nota dálítið af pastavatninu til að þynna.

Berið fram, gott er að kreista smá sítrónu yfir að lokum.

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!