Helena Gunnarsdóttir
Piparmyntuostakaka og fljótlegar bollakökur með lúxuskremi
28. desember 2016

Piparmyntuostakaka og fljótlegar bollakökur með lúxuskremi

Hér eru á ferðinni tvær uppskriftir sem myndu sóma sér vel í öllum veislum. Piparmyntuostakakan er ótrúlega hátíðlegur og sívinsæll eftirréttur sem á alltaf við og ef þið spyrjið mig væri ekki úr vegi að draga bollakökurnar fram eftir miðnætti á gamlárskvöld. Þær er glettilega fljótlegt að útbúa en bera með sér lúxusyfirbragð sem ætti að smellpassa á gamlárskvöld þegar flesta langar í eitthvað smá með freyðivíninu. Það er mjög fallegt og gott að skreyta bollakökurnar með jarðarberi áður en þær eru bornar fram.

Piparmyntu ostakaka með After eight 

(fyrir 8-10):

 

Botninn:

250 g súkkulaðikex (t.d. Oreo eða annað kex með kremi á milli)

10 After eight plötur

2 msk. brætt smjör

1/2 tsk. sjávarsalt

 

Fylling:

1 dós mascarpone ostur við stofuhita (250 gr)

5 dl rjómi

5 dl mjólk

2 pakkar Royal vanillubúðingur

1/2 tsk. piparmyntudropar/piparmyntuextract (má sleppa)

5 jólabrjóstsykurs stafir eða nokkrir piparmyntu brjóstsykursmolar

Nokkrir dropar bleikur matarlitur (má sleppa)

After eight til að skreyta

Aðferð:

Byrjið á að gera botninn. Setjið kexið og After eight í matvinnsluvél. Vinnið í fína mylsnu og hellið smjörinu og saltinu saman við. Geymið. Þeytið saman 5 dl af mjólk og allt búðingsduftið, setjið til hliðar. Þeytið mascarpone ostinn þar til hann verður mjúkur og léttur, hellið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan er eins og léttþeyttur rjómi. Þeytið þá lagaða vanillubúðinginn saman við þar til blandan er slétt og þykk. Myljið brjóstsykurinn í fínt duft og bætið um 3 msk. af duftinu út í ostakökublönduna ásamt piparmyntudropunum og matarlit, ef þið notið. Geymið smá af duftinu til að skreyta með. Þið getið annað hvort sprautað ostakökuna í lítil glös á fæti og borið fram fyrir hvern og einn eða sett hana í eina fallega glæra skál. Þegar ostakökunni hefur verið komið fyrir eins og á að bera hana fram er gott að kæla hana í ísskáp í um 2-4 klst.

 

Fljótlegar bollakökurnar með lúxus súkkulaðikremi 

(18-20 kökur)

 

Kökurnar:

3/4 bolli kakóduft

1 1/2 bolli hveiti eða fínmalað spelt

1 bolli sykur

1 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

1/2 tsk. salt

2 egg

3/4 bolli heitt vatn

3/4 bolli súrmjólk, ab mjólk eða hrein jógúrt

3 msk. bragðlítil matarolía

2 tsk. vanilluextract

 

Lúxus súkkulaðikrem:

100 g dökkt súkkulaði

200 g mjúkt smjör

300 g flórsykur

1 tsk. vanilluextract

1-2 msk. mjólk

 

Aðferð:
Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Hrærið öllum þurrefnunum saman með písk. Bætið restinni út í og hrærið saman þar til deigið er komið saman. Gætið þess þó að hræra ekki of lengi. Skiptið deiginu í 18-20 pappírsklædd bollakökuform og bakið í 20 mínútur. Kælið.

Krem:
Bræðið súkkulaðið við afar vægan hita í potti, yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Þeytið mjúkt smjörið þar til ljóst og létt, bætið flórsykri og vanillu saman við og þeytið vel saman, 2-3 mínútur. Hellið kældu bræddu súkkulaðinu saman við og þeytið saman þar til vel samlagað. Bætið mjólk saman við ef ykkur finnst kremið of þykkt, 1-2 msk. eftir smekk. Setjið í sprautupoka og sprautið á kældar kökurnar eða smyrjið á með hníf.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!