Helena Gunnarsdóttir
Parmesan kjúklingaréttur
30. mars 2015

Parmesan kjúklingaréttur

Hér er á ferðinni einhver allra vinsælasti kjúklingaréttur fjölskyldunnar. Það skemmir ekki fyrir hversu einfalt er að matreiða hann. Okkur finnst langbest að bera hann fram með hvítlauksbrauði og helling af salati og oftast reyni ég að elda meira nóg svo það verði örugglega afgangur. Ef maður er ekki hrifinn af lauk eða spínati má auðveldlega sleppa því, ég hef gert það. Hins vegar reyni ég eftir fremsta megni að troða bæði lauk og spínati í sem flesta svona rétti. Það góða við spínatið er að það er gott "felugrænmeti" og litlir munnar borða það oftast með bestu lyst án þess að hafa hugmynd um það.

Parmesan kjúklingaréttur (fyrir 4-5)

 

4 kjúklingabringur

1 laukur

2-3  góðar handfyllar ferskt spínat

800 gr góð tómatasósa eða maukaðir tómatar (ég nota tvær krukkur af Hunt´s traditional pasta sósu)

1 poki Gott í matinn pizzaostur

2,5 dl brauðraspur (ég tæti hálft baguette niður í matvinnsluvél og rista svo á ofnplötu í við 180 gráður í 10 mínútur)

2 dl rifinn parmesan ostur

Ólífuolía, salt og pipar.

Aðferð:

Skerið kjúklinginn niður í teninga og laukinn smátt. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann brúnast en er ekki eldaður í gegn. Setjið laukinn út á og steikið aðeins áfram. Dreifið spínatinu yfir og hellið svo pastasósunni yfir allt. Dreifið pizzaostinum yfir sósuna, því næst brauðraspinum og svo parmesan ostinum. Hellið örlítilli ólífuolíu yfir allt saman og bakið í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og osturinn ofan á orðinn stökkur og gullinn. Berið fram með hvítlauksbrauði og góðu grænu salati. Eins er hægt að sjóða spagettí með réttinum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!