Helena Gunnarsdóttir
Mjúk súkkulaðikaka með grískri jógúrt og súkkulaði ganache
28. nóvember 2014

Mjúk súkkulaðikaka með grískri jógúrt og súkkulaði ganacheÞó að smákökubakstur sé ómissandi hluti af aðventunni hjá sumum finnst mér ekki síður skemmtilegt að baka gómsætar kökur til að bjóða upp á með aðventukaffinu. Ég hef svona á tilfinningunni að 16 sorta smákökubakstur með tilheyrandi vinnu sé að líða undir lok, kannski sem betur fer. Tilhugsunin um góða köku með kaffinu og samverustund þar sem allir njóta afraksturins saman er mér meira að skapi. Aðventan er einstaklega skemmtilegur tími en ég forðast það eins og heitan eldinn að ráfa um innan veggja verslunarmiðstöðva eftir að fyrsti aðventusunnudagur brestur á. Ég myndi allavega án umhugsunar skipta því út fyrir rólegan sunnudag með nýbakaðri aðventuköku. Þessi kaka er dálítið öðruvísi, gríska jógúrtin gerir hana afar mjúka og hún er alls ekki svo sæt, þó vissulega sé um sannkallað sætabrauð að ræða. Flórsykur dustaður yfir ásamt passlega gamaldags kokteilberjum á toppinn setja svo jólapunktinn yfir i-ið. Njótið aðventunnar!

 

Uppskrift:

·       225 gr smjör                                                                           

·       1,5 dl kakó

·       2 msk sterkt kaffi

·       2 tsk vanilluextract/dropar

·       ½  tsk sjávarsalt

·       2,5 dl vatn

·       5 dl hveiti

·       3,5 dl sykur

·       1 tsk matarsódi

·       1 tsk lyftiduft

·       2 egg

·       2 dl grísk jógúrt

 

Súkkulaðiganache:

·       100 gr suðusúkkulaði

·       1 dl rjómi

 

Aðferð:
Hitið ofn í 160 gráður með blæstri. Annars 180 gráður. Smyrjið hringlaga form að innan með smjöri og dustið kakói innan í svo kakan festist ekki. Setjið smjör, kakó, kaffi, vanillu, salt og vatn í pott og hitið við vægan hita þar til smjörið bráðnar og allt er blandað vel saman. Takið af hitanum. Hrærið þurrefnunum saman í skál. Hellið kakóblöndunni saman við þurrefnin og blandið létt saman við. Pískið eggin út í grísku jógúrtina, hellið svo út í deigið og blandið þar til allt er komið saman. Gætið þess að hræra deigið ekki of lengi. Hellið deiginu í form og bakið í um 45 mínútur. Eða þar til bökuð í gegn og prjóni sem er stungið í miðja kökuna kemur nánast hreinn upp, með smá mylsnu. Athugið kökuna eftir 40 mínútur. Kælið á grind. Bræðið saman súkkulaði og rjóma við vægan hita, kælið örlítið þar til súkkulaðið byrjar aðeins að þykkna. Hellið þá yfir kökuna og látið leka niður hliðarnar. Skreytið með eldrauðum kokteilberjum og flórsykri.Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!