Helena Gunnarsdóttir
Ljúffengir réttir á smáréttaborð eða í saumaklúbbinn
20. október 2016

Ljúffengir réttir á smáréttaborð eða í saumaklúbbinn

Hér koma tvær ljúffengar uppskriftir sem eru upplagðar á smáréttaborðið eða með köldum drykk. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef gert ólífukúlurnar og það bregst ekki að í hvert sinn er ég beðin um uppskriftina. Ef mér skjátlast ekki er uppskriftin upphaflega úr gamalli (25 ára plús) Ostalyst en hefur haldið velli. Uppskriftin hefur þó eflaust tekið einhverjum smávægilegum breytingum síðan.

 

Ólífu ostakúlur

 

100 g hveiti

100 g kalt smjör

100 g rifinn bragðmikill ostur t.d. Sterkur Gouda eða Óðalsostur

50 g rifinn parmesan ostur

¼ tsk chilliflögur eða þurrkaður cayenne pipar (má sleppa)

40-50 grænar, fylltar ólífur (um 2 krukkur)

Aðferð: Setjið allt nema ólífurnar í matvinnslu- eða hrærivél og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Takið smá bút af deiginu, rúllið því utan um ólífurnar og búið til litlar kúlur. Setjið í ísskáp og kælið í eina klukkustund.

Bakið kúlurnar við 200° í um það bil 15 mínútur. Kúlurnar er gott að bera fram volgar eða við stofuhita. Gott að geyma þær í frysti og velgja svo aðeins í ofni áður en þær eru bornar fram.

 

Anti Pasti smjördeigsbitar með fetaosti og dijon sinnep 

(um það bil 8-10 bitar)

 

1 pakki frosið smjördeig, látið þiðna í ísskáp

Dijon sinnep eftir smekk

1 krukka grillaðar paprikur í olíu, smátt skornar

1 krukka grillaðir ætiþistlar í olíu, smátt skornir

Einnig má bæta við sólþurrkuðum tómötum og/eða svörtum ólífum

1 stk Gott í matinn Fetakubbur

1 egg

Ferskt basil

 

Aðferð: Skerið smjördeigið í hæfilega bita, gott að miða við að hver sneið sé um 4 munnbitar. Takið paprikur og ætiþistla upp úr krukkunum og skerið í bita. Skerið ramma í hverja deigsneið með beittum hníf en gætið þess að fara ekki í gegn. Hafið rammann um ½ cm á breidd. Stingið með gaffli í deigið innan rammans. Smyrjið svo þunnu lagi af dijon sinnepi á deigið og setjið 1-2 msk af grænmetinu ofan á. Myljið að lokum fetaost yfir og penslið svo rammann með eggi. Bakið við 220 gráður í um 10-12 mínútur. Rífið smá ferskt basil yfir áður en borið fram. Bitarnir eru góðir volgir eða við stofuhita. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!