Helena Gunnarsdóttir
Kjúklingasalat og súkkulaðibitakökur
29. júní 2018

Kjúklingasalat og súkkulaðibitakökur

Hunangs chili kjúklingasalat  með smjörsteiktum brauðteningum og fetaosti 

(fyrir fjóra)

Hér er á ferðinni uppáhalds kjúklingasalatið mitt. Ótrúlega bragðmikið og fullt að gerast. Smjörsteiktu brauðteningarnir gera svo sannarlega útslagið og alveg þess virði að redda sér góðu súrdeigsbrauði til að útbúa þá. Þetta er sannkallað veislusalat.

Marinering og sósa:

½ dl hunang

½ dl dijon sinnep

½ dl ólífuolía

2-3 tsk. chilimauk (t.d. Sambal oelek) eða 1 rauður hakkaður chili

1 tsk. sjávarsalt

Safi úr einni límónu

2 kjúklingabringur

 

Brauðteningar

2 vænar sneiðar súrdeigsbrauð

3 msk. smjör

1 msk. ólífuolía

Salt og pipar

 

Salat

Einn poki salatblanda eða annað salat eftir smekk

1 mangó

1 lárpera

Kirsuberjatómatar eftir smekk

1 heill fetakubbur frá Gott í matinn, skorinn í teninga eða ein krukka Dala fetaostur í olíu

 

Aðferð

Pískið saman öllu sem fer í marineringuna. Leggið kjúklingabringurnar á disk, takið fjórar matskeiðar af sósunni og hellið yfir bringurnar. Látið marinerast í ísskáp í 2 klst. eða á borði í 30 mínútur.  Geymið restina af sósunni til að hella yfir salatið.

Rífið brauðið í litla teninga. Bræðið smjörið á pönnu og hitið ásamt ólífuolíunni. Steikið brauðteningana þar til stökkir og kryddið með salti og pipar. Færið yfir á disk með eldhúspappír og látið bíða.

Steikið eða grillið kjúklingabringurnar þar til eldaðar í gegn. Skerið allt sem á að fara í salatið niður og leggið á stórt fat. Sneiðið að lokum kjúklinginn í þunnar sneiðar, dreifið brauðteningunum yfir ásamt fetaosti og hellið sósu eftir smekk yfir allt saman. Berið fram strax.

 

Fullkomnar súkkulaðibitakökur

Þessar eru þunnar, stökkar í köntunum og seigar inn við miðju með extra miklu súkkulaði. Alveg eins og súkkulaðibitakökur eiga að vera.

225 g smjör, mjúkt við stofuhita

50 g púðursykur

200 g sykur

2 tsk. vanillu extract

2 egg

250 g hveiti

1 tsk. matarsódi

½ tsk. sjávarsalt (og meira ofan á kökurnar ef vill)

400 g súkkulaðidropar, ég nota dökkt súkkulaði (300 g í deigið, 100 g fara ofan á kökurnar fyrir bakstur)

 

Aðferð

Hitið ofn í 180 gráður með blæstri, annars 200 gráður án blásturs.

Þeytið saman smjör, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum út í einu í einu og þeytið vel á milli. Sigtið saman í skál, hveiti, matarsóda og salti og hrærið saman við. Gætið þess að hræra ekki of mikið. Bætið við 300 grömmum af súkkulaðidropum og hrærið öllu saman.

Setjið rúmlega eina matskeið af deiginu á pappírsklædda ofnplötu. Athugið að hafa gott bil á milli þar sem kökurnar renna vel út, ég set 9 kökur á hverja plötu. Stráið dálitlu af góðu sjávarsalti ofan á hverja köku og toppið svo með nokkrum súkkulaðidropum.

Bakið í um það bil 10-12 mínútur. ATH ef þið viljið mjög þunnar og seigar kökur er gott ráð að lyfta bökunarplötunni þegar bökunartíminn er um það bil hálfnaður og láta hana detta niður, þá falla kökurnar í miðjunni og verða enn þynnri.  Þetta má endurtaka aftur ef kökurnar lyfta sér aftur í miðjunni. Bakið þar til kökurnar hafa brúnast í kantinn og eru enn seigar í miðjunni. Kælið á grind. Ég stalst til að strá svo enn fleiri súkkulaðidropum yfir kökurnar er þær voru nýkomnar úr ofninum. Það má, en þarf ekki :)

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!