Helena Gunnarsdóttir
Grillað grænmeti með heilgrilluðum fetakubbi
29. júní 2017

Grillað grænmeti með heilgrilluðum fetakubbi

Hér er á ferðinni uppáhalds meðlætið mitt þetta sumarið. Ég gæti sennilega grillað þetta daglega án þess að fá nóg. Þetta er meira að segja það mikið gúmmelaði að þetta getur vel staðið eitt og sér sem aðalréttur og þá væri e.t.v. gott að bera þetta fram með fersku salati. Ég hvet ykkur til að prófa að heilgrilla fetakubb. Hann mýkist og það kemur dásamlegt grillbragð af ostinum sem smellpassar við grænmetið. Galdurinn er að hafa grillið mjög heitt og grilla ostinn í um það bil 3-4 mínútur á hvorri hlið. Gott er svo að nota stóran spaða til að snúa ostinum og taka hann af grillinu. Þetta setur þennan ómótstæðilega ost svo sannarlega á hærra tilverustig. Svo er um að gera að nota það grænmeti sem ykkur finnst best. Mér finnst gott að halda þessu einföldu og vera með papriku og tómata. Þið bara verðið að prófa!

 

3-4 paprikur, t.d. gular og rauðar

3-4 stórir tómatar

1 fetakubbur

Ólífuolía

2 msk. ferskt timían

1 msk. bbq sósa að eigin vali

Salt og pipar

Ferskur graslaukur

Aðferð: Takið fetakubbinn úr umbúðunum og þerrið vel með pappír. Leggið á disk og hellið ólífuolíu yfir, um það bil 2 msk. Penslið ostinn vel með olíunni báðum megin. Stráið jafnt yfir ostinn söxuðu fersku timíani og kryddið með pipar. Skerið paprikuna í stóra bita og tómatana í tvennt. Setjið í skál, hellið 1-2 msk. af ólífuolíu yfir ásamt bbq sósu, kryddið með 1 msk. af fersku timíani, salti og pipar og veltið öllu saman. Grillið grænmetið og ostinn á vel heitu grilli í um það bil 8-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með grænmetinu og snúa því reglulega. Snúið ostinum eftir 3-4 mínútur og grillið áfram í aðrar 3-4 mínútur. Osturinn á að vera mjúkur en enn dálítið stinnur í miðjunni. Raðið grænmetinu á disk og skerið ostinn í bita og dreifið yfir. Dreifið að lokum ferskum graslauk yfir allt saman ásamt dálítilli ólífuolíu. Berið fram strax.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!