Helena Gunnarsdóttir
Bláberja möffins og súkkulaði brownie
09. maí 2018

Bláberja möffins og súkkulaði brownie

Bláberja möffins með grískri jógúrt og stökkum toppi

Dásamlega mjúkar og ljúffengar möffins. Ég mæli með að nota stór fersk bláber í þessar kökur til að fá sem fallegasta útkomu en að sjálfsögðu en er einnig hægt að nota frosin.

 

350 g hveiti

1 tsk. matarsódi

1,5 tsk. lyftiduft

¼ tsk. salt

125 g sykur

125 g brætt smjör

1 egg

250 g grísk jógúrt frá Gott í matinn

1 tsk. vanilluextract eða vanilludropar

200 g fersk bláber

Grófur hrásykur eða perlusykur til að strá yfir kökurnar.

 

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Klæðið muffins mót að innan með pappírsformum. Hrærið saman í stórri skál hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti. Pískið saman í annarri skál sykri, smjöri, eggi, jógúrti og vanillu. Takið 1 dl af bláberjum og setjið til hliðar.

Blandið um það bil 1 msk. af hveiti saman við afganginn af bláberjum. Hellið eggjablöndunni saman við þurrefnin og blandið lauslega saman, bætið þá bláberjunum saman við (fyrir utan 1 dl) og hrærið þessu varlega saman. Það er allt í lagi þó deigið sé örlítið kekkjótt, þannig verða kökurnar bara betri.

Skiptið deiginu í um það bil 12-16 möffinsform, toppið hverja köku með 2-3 bláberjum og stráið að lokum  1/2 tsk. af grófum hrásykri eða perlusykri ofan á hverja köku. Bakið í miðjum ofni í um það bil 20 mínútur. Athugið að auka aðeins við baksturstímann ef þið notið frosin bláber.

 

Súkkulaði brownie með rjómaosti

Ótrúlega ljúffeng sparikaka sem allir elska. Ég hef bakað hana ótal oft og hún slær alltaf í gegn. Það er dásamlegt að bera hana fram með rjóma og berjum, ég mæli með hindberjum og jarðarberjum. Fyrir sem bestan árangur er gott að undirbúa sig aðeins fyrir baksturinn og taka rjómaostinn og eitt egg úr ísskápnum og leyfa að ná stofuhita. Þá er auðveldara að blanda öllu saman og ná fram fallegri áferð á kökuna.

 

Súkkulaðideig:

200 g dökkt súkkulaði

200 g smjör

3 egg

150 g sykur

1 tsk. vanilluextract eða vanilludropar

100 g hveiti

½ tsk. salt

 

Rjómaostadeig:

250 g hreinn rjómaostur frá Gott í matinn (mikilvægt að hann sé við stofuhita)

4 msk. sykur

1 stórt egg (við stofuhita er best)

1 tsk. vanilluextract eða vanilludropar

 

Aðferð:

Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Bræðið saman súkkulaði og smjör og látið standa þangað til að blandan hefur náð stofuhita. Hrærið eggjum, sykri og vanillu saman við súkkulaðiblönduna og sigtið að lokum hveitið út í og blandið varlega saman.

Hrærið rjómaost, sykur, egg og vanillu vandlega saman í annarri skál. Hellið ¾ af súkkulaðideiginu í form. Hellið þá rjómaostablöndunni yfir og dreifið úr eins og hægt er. Setjið þá restina af súkkulaðideiginu yfir og dragið með hníf í gegn til að fá fallegt mynstur í kökuna. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur. Kælið kökuna alveg áður en þið takið hana úr forminu og berið fram.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!