Helena Gunnarsdóttir
Banabrauð, grillað eggaldin og frittata
17. maí 2017

Banabrauð, grillað eggaldin og frittata

Ég elska bananabrauð og þetta sérstaka banabrauð alveg einstaklega mikið. Nutella og bananar er bara hin fullkomna samsetning! Kannski ekki það hollasta í bransanum en það vinnur bragðverðlaunin og gott betur. Þetta verðið þið að prófa.

Nutella bananabrauð

5 dl hveiti

2 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

½ tsk. salt

2 dl púðursykur

3 litlir bananar stappaðir

100 g brætt smjör

2 dl mjólk

2 tsk. vanilluextract

2 dl Nutella

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman öll þurrefni. Stappið bananana og bætið út í þurrefnin ásamt smjöri, mjólk og vanillu. Hrærið þessu saman. Setjið Nutella í meðalstóra skál sem má fara í örbylgjuofn. Hitið í 30 sekúndur svo það mýkist aðeins. Takið 3 dl af deiginu og hrærið saman við Nutella. Setjið bananadeigið og nutelladeigið til skiptis í formkökuform, dragið að lokum hníf í gegnum deigið til að blanda aðeins saman, líkt og um marmaraköku væri að ræða. Bakið í 45-50 mínútur eða þar til bakað í gegn.

 

Ég hef stundum gert þennan rétt í grillveislum þegar grænmetisætur eru væntanlegar. Það endar yfirleitt þannig að allir og amma þeirra eru komnir á kaf yfir fatið og rúllurnar hverfa eins og dögg fyrir sólu jafnt ofan í grænmetis- sem og kjötætur. Enda stórgóðar! Hér má líka nota grillaðan kúrbít og rúlla upp líkt og eggaldin. Það er líka gott að nota fyllinguna í grillaðar paprikur, fylla sveppi með henni eða jafnvel tómata.

Grillað eggaldin fyllt með döðlum, chili og rjómaosti

 

2 eggaldin

250 g hreinn rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn

½ fetakubbur, mulinn smátt

2 msk. sýrður rjómi

10 stk. steinalausar döðlur

1 rauður chili, fræhreinsaður

2 vorlaukar

Ólífuolía

Salt og pipar

Klettasalat

Aðferð: Skerið eggaldinið langsum í sneiðar. Penslið með ólífuolíu og grillið við háan hita á báðum hliðum þannig að fallegar grillrendur komi á sneiðarnar og þær mýkjast. Leggið sneiðarnar á fat og leyfið að kólna á meðan þið gerið fyllinguna. Hrærið saman rjómaosti, fetaosti og sýrðum rjóma. Saxið döðlurnar, chili og vorlauk smátt og hrærið saman við. Smakkið til með salti og pipar. Setjið 1 msk. af fyllingunni á endann á hverri eggaldinsneið ásamt dálitlu klettasalati og rúllið upp. Berið fram með klettasalati og stráið rauðum chili ofan á.

 

Frittata er bæði fljótlegur, ljúffengur og alveg einstaklega góður morgunmatur að mínu mati. Það tekur enga stund að skella í eina, rista nokkrar brauðsneiðar með og þá er komin þessi fína máltíð. Þessi er uppáhalds á mínu heimili. Galdurinn við hana er að ég geymi tómata alltaf á eldhúsbekknum, við stofuhita þannig að þeir verða eldrauðir og sætir, svo steiki ég þá upp úr smá smjöri við góðan hita og krydda með salti og pipar áður en eggjunum er hellt yfir. Tómatarnir verða algjört sælgæti við þessa meðferð!

Morgunverðar frittata með mozzarella og tómötum

 

6 egg

1 dl mjólk

10 kirsuberjatómatar

1 stór mozzarellakúla

Handfylli ferskt basil

2 msk. smjör

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Aðferð: Pískið eggin og mjólkina saman og kryddið með salti og pipar. Bræðið smjör á pönnu, skerið tómatana í tvennt og steikið upp úr smjörinu þar til þeir brúnast aðeins. Kryddið með salti og pipar. Hellið eggjunum yfir. Skerið mozzarella ostinn í litla teninga og dreifið svo yfir. Setjið lok á pönnuna og eldið þar til eggin eru bökuð í gegn eða stingið inn í bakarofn undir grill og eldið þar til tilbúið. Stráið að lokum fersku söxuðu basil yfir og skreytið með ferskum tómötum.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!