Halla Bára og Gunnar
Tími smákökunnar
01. desember 2016

Tími smákökunnar

Nú er tími smákökunnar runninn upp. Margir baka alltaf sömu sortirnar en ég fer frekar í það að baka eitthvað sem ég hef ekki reynt áður. Uppskriftir sem heilla mig, ég girnist og tel fara vel í fólkið mitt. Meira að segja búin að reyna eina fyrir nokkrum dögum, sem var ekki alveg að skora nógu hátt, svo ég birti hana ekki núna. Baka reyndar alltaf eina gamla grunnuppskrift sem fær á sig ýmsar myndir, allt eftir því hverjar óskir dætranna eru eða hvað er til í skápnum sem má fara út í deigið. En þessi sem ég birti ykkur núna er hreint ansi góð og svakalega fljótleg. Fá hráefni og fullkomið bragð. Gengur í alla aldurshópa virðist vera. Skora á ykkur að prófa og það sem fyrst.

Kókos- og möndlukökur með karamellubragði

 

1 b möndlumjöl eða fínt malaðar möndlur

1 ½ b fínt kókosmjöl

½ tsk salt

½ b maple-sýróp

¼ b mjúkt smör

1 tsk vanilludropar

dökkt súkkulaði

 

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman þurrefni. Blandið öðru hráefni saman við fyrir utan súkkulaði. Hrærið vel saman en ekki of mikið og ekki of hratt. Búið til litlar kúlur með skeið, á plötu með bökunarpappír. Mótið í hringi og þrýstið aðeins á kúlurnar og gerið toppinn flatan.

Stingið í ofninn og bakið í um 15 mínútur. Athugið þá stöðuna á kökunum og bætið við tímann ef ykkur finnst þurfa. Kökurnar bera það að vera bæði stökkar og mjúkar, allt eftir vilja bakarans, og hann ræður því tímanum.

Takið úr ofninum og kælið. Bræðið súkkulaði eftir óskum (hvítt súkkulaði er ekki slæmt með kökunum heldur). Dífið kökunum í og látið súkkulaðið kólna á kökunum í kæli. Mér finnst betra að geyma þær í kæli. Svo er bara að njóta.

PS. freistaðist til að dýfa þeim í hnetusmjör og það kom vel út!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!