Halla Bára og Gunnar
Þrír réttir á góðu kvöldi
27. september 2013

Þrír réttir á góðu kvöldi

Við hugsum óendanlega mikið um mat. Veltum því fyrir okkur að morgni hvað eigi að vera í kvöldmatinn. Hugsum til helgarinnar, hægeldum og njótum þess að borða. Tíminn er mismikill til eldamennsku sem og stemmningin fyrir því hverju maður nennir. En það eru sennilega allir tilbúnir í rétti sem taka ótrúlega stuttan tíma, eru úr fersku hráefni og mynda saman heild að góðri þriggja rétta máltíð.

Uppskriftirnar að þessu sinni eru kartöflusalat úr nýju smælki sem borið er fram með bresaola. Taglíatelle með steiktu spínati og ostasósu. Tiramisú í eftirrétt til að kóróna máltíðina.
 

Kartöflusalat úr smælki með döðlum og gráðaosti

Hér fá glænýjar kartöflurnar að njóta sín með hýðinu og er salatið borið fram á bresaola sem við höldum mikið upp á. Bresaola má orðið fá í mörgum matvörubúðum og er virkilega hægt að mæla með því. Um er að ræða þurrkað og saltað nautakjöt sem er mjög magurt. Þessi uppskrift er fyrir 4 sem forréttur.

 

30 litlar kartöflur

3 msk sýrður rjómi

3 msk grísk jógúrt

1 tsk hvítvínsedik

salt og svartur pipar

3 msk fersk steinselja, söxuð

12 mjúkar döðlur, skornar fínlega

1 sellerýleggur, smátt saxaður

4 msk lítið capers

4 msk gráðaostur, mulinn niður

 

Sjóðið kartöflurnar, kælið og þerrið að því loknu. Hrærið saman sýrðan rjóma, gríska jógúrt og edik, smakkið til með salti og pipar. Blandið saman steinselju, döðlum, sellerýi, capers og gráðaosti og hrærið varlega. Setjið kartöflurnar saman við og látið blönduna þekja kartöflurnar vel.

Leggið bresaola-sneiðarnar á disk og setjið salat í miðjuna. Athugið að þetta er góður forréttur en stendur fyllilega sem réttur einn og sér.

 

Taglíatelle með smjörsteiktu spínati og ostasósu

Klassískur pastaréttur sem má finna í ýmsum útgáfum. Kremkennd og rík sósan hæfir sérstaklega vel árstímanum og spínatið smyr pastað smjöri og hvítlauk. Þessi uppskrift er fyrir 4 sem aðalréttur en ef bara réttur einn og sér má bæta aðeins við hana.

 

400 g taglíatelle

2 msk smjör

2 msk ólífuolía

2 hvítlauksrif, marin

½ tsk rifið, ferskt múskat

400 g ferskt, spínat

salt og svartur pipar

4 msk mascarpone-ostur

4 msk sýrður rjómi

3 dl rjómi

3 dl pastasoð

4 msk parmesanostur

 

Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum. Náið ykkur í pastasoð áður en þið hellið af pastanu og geymið. Látið renna vel af því. Meðan pastað sýður er olía og smjör brætt saman á pönnu, hvítlaukurinn mýktur en gætið vel að því að brúna hann ekki. Setjið spínatið á pönnuna og mýkið það upp í blöndunni. Mýkið í 5 mínútur.

Bræðið mascarpone-ostinn á pönnunni, blandið við sýrðum rjóma, rjóma og hellið pastasoðinu yfir. Hrærið varlega og smakkið til með múskati, salti og pipar. Stráið parmesanosti yfir og blandið saman við.

Hellið pastanu á pönnuna og látið sósuna umlykja það. Berið fram og rífið parmesanost yfir.

 

Tiramisú

Einn af uppáhaldseftirréttunum. Við gerum hann alveg í sínu einfaldasta formi svo allir í fjölskyldunni getið notið hans. Fljótlegur eftirréttur og líka góður því maður býr hann til fyrirfram og á hann tilbúinn í ísskápnum.

 

2 eggjarauður

3 msk flórsykur

1 tappi vanilludropar, má sleppa

1 dós mascarpone-ostur, við stofuhita

2 eggjahvítur, stífþeyttar

ladyfingers-kökur, magn eftir stærð á kökum

5 dl gott, uppáhelt kaffi

örlítið kakó

 

Þeytið eggjarauður og flórsykur í hrærivél eða með handþeytara þar til létt og ljóst. Ef vilji er til má bæta við pínu vanilludropum. Bætið mascarpone-osti saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli þar til úr verður kekkjalaus blanda. Hrærið eggjahvíturnar saman við ostablönduna, varlega með sleif eða á mjög hægum hraða í vél. Náið að blanda öllu vel saman.

Dýfið fingrakökunum varlega ofan í kaffið og leggið kökur hlið við hlið í form sem bera á réttinn fram í. Þekið botninn. Hellið ostablöndu rólega yfir og þekið kökurnar. Stráið kakói yfir í gegnum lítið sigti. Endurtakið annað lag af kökum, ostablöndu og kakó, bætið jafnvel við lagi en endið alltaf á ostablöndu með kakói yfir. Hér er það algjört smekksatriði hversu rétturinn er blautur, þ.e. hversu kremið er mikið milli laga. Það er alveg hægt að hafa fleiri lög með minna kremi. Setjið í kæli í a.m.k. tvo tíma áður en borið fram. Góður réttur til að gera kvöldið áður.

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!