Halla Bára og Gunnar
Þægindamatur af fyrstu gráðu
27. október 2015

Þægindamatur af fyrstu gráðu

Pasta með grænum baunum, beikoni, blaðlauk, rjóma- og parmesansósu

Réttur sem fellur algjörlega í þann flokk sem kallast „comfort” food á ensku, eða þægindamatur. Matur til að snæða þegar farið er að kólna og dimma. Á að hafa það huggulegt, við kertaljós, teppið í sófanum, hlýir sokkar, ítalskt vín í glasi fyrir þá sem það vilja. Alveg ljóslifandi mynd, ansi mikið uppsett og pínu klén en einhvern veginn kemur hún samt upp í hugann! En skiptir ekki máli, a.m.k. góður og djúsí réttur sem mann langar til að elda aftur og það eru meðmæli í endalaustri flóru mataruppskrifta. Reyndar er þetta hefðbundinn, ítalskur réttur þar sem sætleika baunanna er teflt saman við salt beikonið og kremuð áferðin mýkir allt í munni.

 

400 g gæðapasta að eigin vali

250 g grænar baunir, frosnar

3 msk ólífuolía

1 blaðlaukur, meðalstór, fínt skorinn

350-400 g beikon eða hráskinka

salt og svartur pipar

2 dl rjómi

1 dl pastavatn

5 msk parmesanostur, rifinn

 

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum. Frosnar baunirnar fara saman við pastað í pottinum þegar um 4 mínútur eru eftir af suðutímanum. Hellið olíu á pönnu á miðlungshita. Mýkið laukinn og beikonið/hráskinkuna saman og gætið að því að ofelda ekki laukinn, þá verður alls ekki rétt bragð af réttinum. Saltið og piprið eftir smekk.

Veiðið pastavatn úr pottinum og hellið einum desilítra á pönnuna. Hellið rjómanum saman við, hrærið. Stráið ostinum yfir og hrærið. Athugið að þið gætuð vilja hafa meiri sósu á pastað en þá er bara að setja meira pastavatn og meiri rjóma.

Hellið vatninu af pastanu og baununum og setjið út í sósuna á pönnunni í smá skömmtum. Borgar sig ekki að setja allt í einu upp á að ná að láta sósuna leika vel um pastað. Frekar bæta pasta á pönnuna þegar búið er að fá sér einu sinni á diskinn. Berið fram. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!