Halla Bára og Gunnar
Spínatfyllt canneloni og mjúk súkkulaðikaka ¬– verður varla betra!
12. febrúar 2014

Spínatfyllt canneloni og mjúk súkkulaðikaka ¬– verður varla betra!

Við verðum að viðurkenna að ítölsk matargerð hentar okkur einstaklega vel. Það er gaman að elda ítalskan mat og hvað þá að borða hann. Kosturinn við hann er líka sá að það er svo auðvelt að aðlaga hann að þörfum hvers og eins, hverrar fjölskyldu fyrir sig, því þannig er einmitt ítalskur matur. Klassískir réttir byggja á ákveðnum hefðum en svo hefur hver fjölskylda sína uppskrift og útfærslu.
Laugardagskvöld eitt fyrir skömmu var eldaður einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar, canneloni með spínati og ríkotta var aðalrétturinn. Mjúk súkkulaðikaka var höfð í eftirrétt. Þetta var þvílíkur dásemdarmatur að ekki var annað hægt en gefa ykkur, lesendur góðir, þessar tvær einföldu en gómsætu uppskriftir til að elda. Báðar uppskriftirnar eru sérlega hentugar þegar bjóða skal í mat.


 

Canneloni með spínati og ríkotta-/kotasælufyllingu

Fylling:
1 poki ferskt spínat
3 msk smjör
1 bolli ríkottaostur eða hrein kotasæla (150 g)
½ bolli rifinn parmesanostur (75 g)
2 egg
¼ tsk múskat
salt og pipar
12 cannelonirör
1 tsk ólífuolía

fersk tómatsósa, passata í krukku eða önnur tilbúin ítölsk tómatsósa

Bechamelsósa:
3 msk smjör
1 msk hveiti
1 bolli mjólk (2,5 dl)
½ bolli rifinn parmesanostur (75 g)
salt og pipar


Hreinsið spínatið og skolið. Þerrið það eins og hægt er. Saxið það gróflega. Bræðið smjörið á pönnu. Setjið spínatið á pönnuna og látið það mýkjast í um fimm mínútur. Kælið aðeins áður en spínatið fer út í ostablönduna. Ef þið notið kotasælu í réttinn er ekki verra að láta renna aðeins úr henni mesta vökvann í gegnum fínt sigti. Hrærið saman ríkottaost/kotasælu, parmesanost, egg og múskat, saltið svo aðeins og piprið. Hrærið spínatið saman við blönduna. Gerið nú sósuna. Bræðið smjörið í potti. Hrærið hveitið saman við svo úr verði þykk bolla. Hellið mjólkinni saman við í smá skömmtum og hrærið jafnt og vel í hvert skipti þar til úr verður mjúkur jafningur. Hrærið ostinn saman við og smakkið til með salti og pipar.

Takið cannelonirörin og látið spínatblönduna renna ofan í rörin. Best að láta rör standa upp á endann á litlum diski og nota teskeið í þetta. Fyllið rörin vel. Það er misjafnt hvort notuð er ítölsk tómatsósa í botninn á forminu í þessum rétti en það er mjög gott. Má sleppa því og setja hluta af bechamel-sósunni í botninn líka. Hér má því stytta sér leið og kaupa tilbúna tómata-passata í krukku og hella hluta af henni í formið eða jafnvel tilbúna tómatsósu (Jamie Oliver sósurnar eru mjög góðar í þetta). Leggið nú fyllt rörin í formið, raðið þeim fallega ofan á sósuna. Hellið bechamel-sósunni yfir rörin, gott að strá smá rifnum parmesanosti yfir að lokum. Setjið í 180 gráðu heitan ofn í um 35-40 mínútur eða þar til rörin eru mjúk undir tönn og sósan gullin. Berið fram heitt.  

Sérlega fljótlegur súkkulaðieftirréttur
Við höfum notað og prófað margar eftirréttauppskriftir frá hinni áströlsku Donnu Hay. Þessi er innblásin frá henni – ljúffeng og fljótleg sem er ekki verra þegar skellt er í eftirrétt.

Kaka:
½ bolli hveiti (75 g)
¼ bolli púðursykur (45 g )
1 ½ tsk lyftiduft
2 msk kakó
½ b mjólk (1,25 dl)
35 g brætt smjör
1 egg, hrært
1 tsk vanilludropar

Ofan á kökuna:
½ bolli púðursykur (75 g)
1 msk kakó
1 bolli sjóðandi vatn (2,5 dl)

Hitið ofn í 180 gráður. Sigtið saman þurrefnin. Hrærið mjólk, smjör, egg og vanilludropa saman við þar til úr verður kekkjalaust deig. Hellið í fjögur lítil form (eitt á mann) eða eitt stærra eftir að hafa smurt formin að innan með smá smjöri.
Hrærið saman púðursykur og kakó og stráið yfir deigið. Komið upp suðu á vatninu og hellið yfir deigið í forminu. Stingið inn í heitan ofn og bakið í 12-15 mínútur ef um lítil form er að ræða en um 15-18 mínútur ef kakan er í einu stærra formi. Gætið vel að því að baka kökuna ekki of mikið, hún á að vera vel blaut í miðjunni. Berið kökuna fram heima með rjóma, ís eða mascarponeosti.


 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!