Halla Bára og Gunnar
Snittur fyrir aðventuboð
30. nóvember 2018

Snittur fyrir aðventuboð

Snittur fyrir aðventuboðið

Mér sýnist að allt sem tengist brauði og ostum, hvað þá brauði og ostum í einni sæng, sé einstaklega vinsælt góðgæti og almenn ánægja með að fá góðar uppskriftir í safnið sem fela það í sér. Nú nýlega bjó ég til þessar tvær snittur fyrir námskeiðið mitt í innanhússhönnun og get sagt með sanni að þær hafi verið vinsælar. Þess vegna er ég virkilega sátt með að setja þær hérna inn á Gott í matinn. Þær henta líka vel fyrir þennan árstíma þar sem boð og fögnuðir eru algengir.

Snittur með rauðu rjómaostakremi og mozzarella

Innihald:

Heimalagaðir, hægeldaðir tómatar eða mjúkir sólþurrkaðir tómatar í krukku. Einnig má nota rautt pestó eða grófsaxað tómatamauk. Slíkt er til víða í góðum verslunum og margt annað sem má nota í þessa uppskrift

Heimalagaðar grillaðar paprikur, grillaðar paprikur í krukku eða paprikumauk. Slíkt er til víða í góðum verslunum og margt annað sem má nota í þessa uppskrift.

Athugið að hér má líka bæta við grilluðum kúrbít eða eggaldini ef vilji er fyrir hendi.

Mjúkur rjómaostur frá Gott í matinn. Um 2 dl grænmetismauk á móti 1 dl af rjómaosti

Bagetta, skorin í þunnar sneiðar .

Mozzarellakúlur

Basilíka, rifin eða smátt skorin

 

Maukið grænmetið gróflega. Hrærið mjúkan rjómaost saman við og blandið vel. Smakkið til með salti og pipar, jafnvel smá chillípipar.

Grillið brauðsneiðar örlítið í ofni. Gott að smyrja sneiðarnar með hvítlauk og dreypa góðri ólífuolíu yfir þær.

Smyrjið sneiðarnar með kreminu, ekki spara það.

Rífið mozzarellakúlurnar niður og setjið nokkra bita á sneiðarnar.

Setjið basilíku yfir hverja snittu og stráið pipar yfir að lokum.

Berið fram.

 

Snittur með Óðals Jarli, túnfisksmjöri, mjúkum lauk og sítrónu

Innihald:

Óðals Jarl í þykkum sneiðum

150 g mjúkt smjör

1 dós túnfiskur í olíu

3 msk. capers

Pipar

1 laukur, fínt skorinn í hálfhringi

Bagetta, skorin í þunnar sneiðar

 

Maukið saman allt hráefnið þar til það fær á sig fallega áferð. Smakkið til og saltið og piprið eftir smekk. Geymið.

Skerið laukinn og mýkið hann á pönnu við lágan hita í góðri ólífuolíu.

Saltið örlítið til að varna því að hann brenni. Kælið.

Skerið sítrónu í þunnar sneiðar og hverja sneið í míní kökusneiðar.

Setjið þykka sneið af Jarli á hverja brauðsneið.

Grillið brauðsneiðar örlítið í ofni svo osturinn bráðni.

Gott er að smyrja sneiðarnar með hvítlauk og dreypa góðri ólífuolíu yfir þær á eftir. Kælið.

Smyrjið brauðið með túnfisksmjörinu yfir ostinn, ekki spara það.

Setjið lauk á hverja sneið yfir túnfisksmjörið, sítrónubita með og piprið yfir.

Berið fram.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!