Halla Bára og Gunnar
Skyndihlaðborð af ítölskum ættum
11. júlí 2014

Skyndihlaðborð af ítölskum ættum

Ef það kemur allt í einu upp sú fína hugmynd að bjóða vinum eða góðum ættingjum í mat, ekki er tími í mikla eldamennsku og bras, þá komum við hér með veisluborð sem má galdra fram á max 20 mínútum og er ávísun á góða skemmtun. Þetta er samsafn af klassískum, ítölskum réttum sem flestir þekkja en kannski færri velta því fyrir sér að skella saman og njóta með góðu fólki og drykk við hæfi. Aspas og egg, hráskinka og melóna, tómatar og mosarella ásamt góðum ostum, pestói, grilluðum paprikum, gæðabrauði og að sjálfsögðu parmesanosti er samsetning sem klikkar ekki og öllum á eftir að líka.

Ferskur aspas með spældu eggi og parmesanosti

Ferskur aspas er snyrtur vel, skorið neðan af honum og ef hann er grófur að utan borgar sig að skafa hann að utan með kartöfluskrælara eða ostaskera. Hann er settur í sjóðandi vatn og saltaður örlítið. Soðinn þar til aspasinn er mjúkur undir tönn en alls ekki sjóða hann of lengi. Þá verður hann of mjúkur. Látið renna af aspasinum þegar hann er soðinn. Hann settur á fat eða á stóran disk til að bera fram.

Á meðan aspasinn sýður er best að spæla egg, eitt á mann ef ekki eru of margir í boðinu, en annars nokkur góð til að bera fram með. Eggjunum er leyft að malla í góðri ólífuolíu og að lokum er væn smjörklípa sett út á pönnuna. Eggin eru sett ofan á aspasinn og olíu-smjörblöndunni hellt yfir allt saman. Ferskur parmesanostur rifinn yfir að lokum og ekki spara hann. Úr verður ómótstæðileg blanda.

 

Hráskinka og melóna

Hráskinka er tekin í sundur, sneiðarnar lagðar lausar á disk eða fat. Cantaloupe-melóna er skorin í þunna báta og þeir lagðir á diskinn með melónunni. Góðri ólífuolíu dreypt yfir. Borið fram.

Tómatar og mosarella

Góðir og vænir rauðir tómatar eru skornir í sneiðar. Mosarellakúlur skornar í sneiðar. Fersk basilíka rifin niður. Tómötum og osti raðað til skiptis á disk eða fat, basilíku dreift yfir. Góðri ólífuolíu dreypt yfir og svo má salta örlítið með sjávarsalti og jafnvel pipra pínu.

Með þessum réttum er gott og flott að bera fram góða osta (að sjálfsögðu frá MS), nýtt súrdeigsbrauð eða gæðabagettur, pestó og grillaðar paprikur (úr krukku þar sem boðið var ákveðið með svo stuttum fyrirvara að ekki er hægt að malla sitt eigið!) og svo má ekki klikka á parmesanostinum. Góður og ferskur drykkur er nauðsynlegur með ítölsku veisluborði sem þessu yfir sumarið. Njótið vel og góða skemmtun. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!