Halla Bára og Gunnar
Sætar og ósætar smákökur
20. desember 2018

Sætar og ósætar smákökur

Ein uppskrift, tvær tegundir – sætar og ósætar smákökur

Það er eitthvað heillandi við góðar uppskriftir sem má útfæra auðveldlega eftir þörfum. Þessi sem hér er, er dæmi um slíkt. Virkilega góð uppskrift af „cookies" sem ég setti einnig í ósætan ostabúning; gerði ostakex úr sama grunni. Margir líta svo á að smákökutíminn sé vel fyrir jólin en hjá okkur eru kökur eins og þessar bakaðar allt árið, þegar löngunin í þær kallar á mann. Í sætu kökurnar má setja allt mögulegt, súkkulaði-lakkrís-karamellur. Í ósætu ostakökurnar má nota ýmsa osta og um að gera að nota afganga af osti. Mjög fljótleg uppskrift sem gleður fjölskylduna hvort sem það eru jól, áramót eða bara alls ekkert í gangi!

 

Sætar smákökur með súkkulaði og saltkringlum

1 bolli smjör

2 1/2 bolli hveiti

1 tsk. salt

1/2 tsk. lyftiduft

1 1/2 bolli púðursykur

2 egg

2 tsk. vanilludropar

1 1/2 bolli súkkulaðidropar, að eigin vali

1 bolli saltkringlur, brotnar niður í minni bita

 

Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið smjör í potti og leyfið því að malla rólega þar til það fær á sig karamellulitaðan keim. Takið af hitanum og látið kólna. Hrærið saman þurrefni fyrir utan sykur. Hrærið saman bráðið smjörið, púðursykur, egg og vanilludropa. Blandið þurrefnum saman við. Þið getið bæði hrært saman í vél eða bara með gaffli.

Notið súkkulaðidropa eða saxið súkkulaði. Hér skuluð þið velja algjörlega það súkkulaði sem ykkur þykir gott og blanda saman tegundum. Hrærið saman við deigið. Þá fara saltkringlurnar saman við það.

Hnoðið litlar kúlur og setjið á bökunarplötu. Hér ákveðið þið hversu stórar þið viljið að kökurnar séu. Stingið í heitan ofninn og bakið í um 10 til 12 mínútur eða þar til kökurnar eru gullnar ásýndar.

 

Ósætar smákökur með Óðals Cheddar

1 bolli smjör

2 1/2 bolli hveiti

1 tsk. salt

1/2 tsk. lyftiduft

2 egg

1 bolli rifinn Óðals Cheddar

1 bolli saltkringlur, brotnar niður í minni bita

 

Hitið ofn í 180 gráður. Bræðið smjör í potti og leyfið því að malla rólega þar til það fær á sig karamellulitaðan keim. Takið af hitanum og látið kólna. Hrærið saman þurrefni. Hellið brædda smjörinu saman við. Þið getið bæði hrært saman í vél eða bara með gaffli. Þá fer osturinn út í og saltkringlurnar saman við allt. Ef deigið virðist verða stíft og þétt skal þynna það með vatni.

Hnoðið litlar kúlur og setjið á bökunarplötu. Hér ákveðið þið hversu stórar þið viljið að kökurnar séu. Fletjið þær aðeins út til að ná þeim í þynnra lagi ef þið kjósið svo. Stingið í heitan ofninn og bakið í um 10 til 12 mínútur eða þar til kökurnar eru gullnar ásýndar. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!