Halla Bára og Gunnar
Rjómaosta- og Nutellakrans í einum grænum
15. desember 2017

Rjómaosta- og Nutellakrans í einum grænum

Fljótlegt en ljúffengt á mjög oft vel saman þegar kemur að smá sætindum. Uppskriftir og hreinlega hugmyndir að einhverju sem öllum þykir gott seinnipartinn, í morgunmatinn, á sunnudegi í aðventu og mörgum fleiri stundum. Rjómaosta- og Nutellakransinn fellur í þennan flokk. Svo er hann líka frekar sætur á að líta. Sennilega ljúfmeti sem tekur um fimm mínútur að framkvæma.

Innihald:

Kanilsnúðadeig – ef uppskriftin á að standa undir nafni þá er hér keypt tilbúið kanilsnúðadeig í rúllu, það sleppur alveg að nota pizzadeig ef hitt er ekki til

Nutella

Rjómaostur frá Gott í matinn

 

Fletjið eða rúllið deigið út. Smyrjið með Nutella og hafið meira súkkulaði við jaðarinn ofanverðan svo fyllingin sé djúsí í miðju hvers snúðs. Smyrjið rjómaost sömuleiðis við jaðarinn ofanverðan. Rúllið vandlega upp og um fyllinguna og haldið svo áfram að rúlla deigið alla leið.

Myndið hring úr deiginu og leggið á plötu með bökunarpappír. Skerið eða klippið í deigið, ¾ hluta inn í hringinn. Lagið snúðana til eftir klippinguna og snúið aðeins uppá þá svo þeir opni sig.

Stillið ofninn á hita skv. leiðbeiningum á deigumbúðunum. Bakið líklega í um tíu mínútur en sömuleiðis skv. leiðbeiningum, alls ekki of mikið svo snúðarnir séu mjúkir og góðir og endist betur.

Takið úr ofninum, látið aðeins kólna og skreytið að vild áður en borið fram.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!