Halla Bára og Gunnar
Rauðar rjómaostaflauelskökur á aðventunni
15. desember 2016

Rauðar rjómaostaflauelskökur á aðventunni

Það var áferðin og liturinn sem heillaði mig við þessar kökur þegar ég hnaut um uppskriftina. Líka það að í henni væri rjómaostur sem er smá öðruvísi. Baksturinn tók nákvæmlega enga stund og einkunnagjöf heimilisfólks var óumdeild: Bara bestu kökur sem ég hef smakkað! Það er ótrúlegt, þær eru hrikalega góðar en líka svo fallegar. Í framhaldinu ætla ég að nota sömu deigblöndu, sleppa matarlitnum og skella einum Rolo-mola í miðju kúlunnar. Á eftir að birta myndir af þeirri tilraun. En ég skora á ykkur að prófa þessar, þær sviku ekki á mínu heimili.

 

2 ¼ b hveiti (5 ½ dl)

2 b sykur (5 dl)

2 msk kakó

2 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

220 g mjúkur rjómaostur

60 g mjúkt smjör

2 egg

1 msk rauður matarlitur

 

½ b flórsykur (1 ¾ dl)

 

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman þurrefnin í skál, ekki flórsykurinn. Hrærið rjómaost og smjör í hrærivél eða með handþeytara, blandið vel. Brjótið egg saman við og hrærið þar til létt og ljóst. Hellið matarlit saman við þar til úr verður hárauð og jöfn blanda.

Hellið þurrefnum saman við í nokkrum skömmtum og náið deiginu mjúku og jöfnu. Mótið litlar kúlur úr deiginu sem þið veltið upp úr flórsykrinum. Setjið á pappírsklædda bökunarplötu, stingið í ofn og bakið í 10-15 mínútur, bökunartími fer eftir stærðinni á kökunum. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!