Halla Bára og Gunnar
Pönnukökukaka
11. október 2018

Pönnukökukaka

Pönnukökukaka með ljúffengri fyllingu

Í þá gömlu, góðu daga. Þessi yndislega pönnukökukaka sækir í gamla tíma en er uppfærð til nútímans. Uppskriftin af pönnukökunum er mjög góð og traust og mikið notuð á okkar heimili (af húsbóndanum en með þessum pönnukökum hefur hann einnig snúið sér að bakstri). Pönnukökurnar settar upp í köku, sem fyllt er með ostum á öllum hæðum, er ekki bara góð hugmynd á morgunverðarborðið, í brunchinn, sunnudagskaffið og svo framvegis, heldur er hún líka falleg til að bera fram.

Pönnukökur

2 bollar hveiti eða 250 grömm

3 msk. sykur

1 1/2 tsk. lyftiduft

1 1/2 tsk. natron

1 1/4 tsk. salt

2 stór egg

2 1/2 bolli súrmjólk eða 6 1/2 dl

3 msk. brætt smjör

Grænmetisolía eða kókosolía á pönnuna til steikingar

 

Hrærið þurrefnin saman. Hrærið egg, súrmjólk og brætt smjör saman. Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið þar til úr verður kekkjalaus blanda.

Bakið pönnukökur á pönnu að eigin vali. Athugið að pannan þarf algjörlega að miðast að því hvernig pönnukökurnar eiga að vera, litlar eða stórar. Notið örlitla olíu á pönnuna. Við gerum stórar til að setja þær upp í köku. Bakið stórar pönnukökurnar á hvorri hlið þar til gullnar. Fylgist vel með bakstrinum því pönnukökur eru fljótar að brenna. Látið pönnukökurnar kólna áður en þeim er raðað í köku.

 

Fylling

Að sjálfsögðu er hægt að setja allt milli himins og jarðar á pönnukökuköku. Uppáhaldið okkar er:

 

Gamaldags hangikjötssalat

Rjómaostur frá Gott í matinn og agúrka yfir

Soðin egg á rjómaosti frá Gott í matinn

Dala Brie ostur

Brauðostur, sbr. Óðals Gouda sterkur

 

Það má nota hvers konar salat í stað hangikjötssalats, allskonar osta og rjómaosta. Allt verður gott.

 

Hugmynd að fyllingum

Laxasalat

Rjómaostur með kryddblöndu og agúrka

Rjómaostur og tómatsneiðar

Óðals Ísbúi eða Óðals Tindur og soðin egg, smurt með rjómaosti eða Smjörva

Dala Auður eða Dala Kastali

 

Skinkusalat

Rjómaostur með svörtum pipar og tómatar

Óðals Havarti eða Óðals Búri og agúrka, smurt með rjómaosti eða Smjörva

Dala Camembert eða Dala Höfðingi

 

Það er hvers og eins að ákveða hversu margar hæðir kakan skal vera og í hvaða röð allt saman fer. Það er þó gott að salatið fari á tvær hæðir því það kemur inn með meiri mýkt og fyllingu. Huggulegt er að smyrja toppinn og skreyta hann, nota ber og kryddjurtir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!