Halla Bára og Gunnar
Pestólasanja fyrir kaldari daga
31. ágúst 2015

Pestólasanja fyrir kaldari daga

Það er einn réttur sem poppar upp í huga okkar þessa dagana frá Ítalíuferðinni sem á sérlega vel við þegar farið er að kólna í veðri. Það er pestólasanja sem við smökkuðum á stað sem heitir Princi. Princi er bakarí og hádegisstaður í Mílanó (nota bene, hann er líka í London) sem er sérlega vinsæll. Ekki að undra því maturinn þar er hrikalega góður, brauðið og sætmetið. Við fengum okkur venjulegt lasanja að smakka sem og pestólasanja ásamt fleiri réttum og er pestóútfærslan eftirminnileg hugmynd að rétti, ótrúlega einföld.

Hún byggir á upprunalegri pestóhugmynd frá Genóa, uppskrift sem við gerum stundum frá Jamie Oliver, þar sem heimalagað pestó er borið fram með soðnum kartöflum og löngum, grænum baunum. Nema hér er hráefninu raðað saman í lög svo úr verður lasagna! Athugið að magn fer eftir smekk, sbr. hversu mikið pestó þið viljið o.s.frv. Hér að neðan er uppskrift af bechamelsósu en flestir eiga sér uppáhaldspestó eða kaupa gæðapestó í krukku og slík uppskrift er því óþörf þar sem þetta pestólasanja er meira hugmynd að góðum rétti en klár uppskrift.

 

Allt sem þarf er…

–góðar lasanjaplötur, mælum með því að kaupa ferskar og sjóða þær í rúma mínútu fyrir notkun

–grænt gæðapestó, heimalagað eða keypt tilbúið

–bechamelsósa, heimalöguð en hægt að kaupa tilbúna í sérvöldum verslunum

–soðnar kartöflur, skornar í sneiðar

–grænar, langar baunir (haricot), soðnar

–ferskur og rifinn parmesanostur

–fersk og rifin mozzarellakúla

Bechamelsósa er smurð í botninn á ofnföstu móti sem hentar undir lasanja. Lasanjaplötur eru lagðar yfir sósuna. Pestó er smurt á plöturnar. Kartöflur og baunir lagðar yfir. Sósu dreypt yfir að lokum (ekki spara hana). Þá lasanjaplötur yfir og haldið áfram koll af kolli og búin til nokkur lög. Þegar efsta lagið hefur verið lagt skulu lasanjaplötur vera efstar, þær eru smurðar með pestói og sósa sett yfir. Að lokum er rifnum mozzarella stráð yfir og þar yfir rifnum parmesanosti og er lasanjað loks sett í 180 gráðu heitan ofn í 20-30 mínútur eða þar til rétturinn er heitur í gegn. Þá er hann borinn fram og hans notið til hins ítrasta!

Bechamel-sósa:

 

50 g smjör

5 msk hveiti

4-5 dl mjólk

salt og pipar

½ tsk múskat

1 dl fínt rifinn parmesanostur

Aðferð:

Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti saman og úr verður smjörbolla. Hellið smá mjólk út í og hrærið mjög vel þar til smjörbollan tekur að leysast upp. Hellið meiri mjólk og hrærið, haldið áfram í þessu ferli þar til smjörbollan er orðin að kekkjalausum jafningi. Athugið að magn á mjólk sem þarf í sósuna getur verið mjög mismunandi. Hrærið parmesanost saman við og látið hann bráðna vel. Kryddið með múskati og smakkið til með salti og pipar. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!