Halla Bára og Gunnar
Ostar á ólíkan hátt
10. mars 2014

Ostar á ólíkan hátt

Ef eitthvað er klassík að bjóða upp á í boðinu, þá eru það ostar og að nota osta í matargerð og bakstur. Hér eru ostar notaðir á ólíkan hátt en eru samt aðalatriðið.

 

Perubaka með gráðaosti

 

4 meðalþroskaðar perur, skornar í báta

safi úr hálfri sítrónu

2 msk flórsykur

1 msk hveiti eða kartöflumjöl

100 g hrásykur

150 g gráðaostur

mjólk til penslunar

tilbúið bökudeig*

 

Hitið ofn í 180 gráður. Veltið perum upp úr sítrónusafa, stráið flórsykri yfir og látið standa í 30 mínútur. Þerrið perurnar, setjið í skál, stráið hveiti yfir og veltið upp úr hveitinu. Stráið hrásykri yfir perurnar og blandið vel saman. Myljið helminginn af gráðaostinum saman við.

Takið bökudeigið og þrýstið því létt niður í bökuform. Hellið perunum yfir bökudeigið og dreifið jafnt úr þeim. Lokið með deiginu sem stendur út af. Stráið afganginum af ostinum yfir perurnar sem ekki eru þaktar deigi. Bakið í um 45 mínútur eða þar til osturinn er vel bráðinn og deigið gullið. Berið bökuna fram heita en hún er ekki síðri við stofuhita.

*Tilbúið bökudeig fæst í flestum matvöruverslunum og flýtir gerð bökunnar mjög mikið. Annars er um hefðbundið bökudeig að ræða.

 

Ítalskur brauðréttur með ferskum aspas

 

8 egg

8½ dl mjólk

4 msk graslaukur, fínt saxaður

16 ferskir aspasstönglar, skornir í tvennt á langveginn

16 sneiðar hráskinka

200 g Ísbúi eða Tindur

8 brauðsneiðar af vænu og hvítu gæðabrauði að eigin vali, skerið sjálf í sneiðar

 

Hitið ofn í 180 gráður. Smyrjið ofnfast mót með olíu. Hrærið saman egg, mjólk og graslauk þar til létt og froðukennt, kryddið með salti og pipar.

Leggið 8 aspasstöngla í botninn á mótinu, 4 hráskinkusneiðar fara yfir aspasinn, stráið ¼ af ostinum yfir hráskinkuna og leggið brauðsneiðarnar yfir allt saman. Hellið helmingnum af mjólkur- og eggjablöndunni yfir og þrýstið létt á brauðið svo vökvinn síist inn í það. Endurtakið með aspas og hráskinku en hellið afganginum af vökvanum þá yfir og hafið afganginn af ostinum sem efsta lagið.

Látið réttinn standa í a.m.k. 30 mínútur áður en hann er settur í ofninn, en hann getur beðið í ísskáp í allt að sólarhring. Bakið í 25-30 mínútur þar til rétturinn er gullinn og bullar upp með hliðunum.

 

ATHUGIÐ að þetta er uppskrift í stórt fat. Hana má auðveldlega helminga.

 

Bakaðir ostar I

 

1 Stóri Dímon, Kastali eða Camembert

1 msk þurrt hvítvín

kartöflubátar, bakaðir í ofni þar til stökkir að utan

cornichons, litlar sýrðar gúrkur í krukku

bagetta eða annað gott brauð eða kex

 

Hitið ofn í 200 gráður. Takið þann ost sem valinn hefur verið og skerið efsta lagið ofan af honum eins og lok. Leggið lokið aftur á ostinn, stingið með oddhvössum hníf nokkrum sinnum ofan í það og gerið smá göt. Látið ostinn standa á álpappírnum sem var utan um hann og þrýstið honum upp með hliðum hans. Setjið ostinn í ofnfast mót til að hita hann í. Dreypið hvítvíninu yfir ostinn.

Bakið í um 15 mínútur eða þar til hann er vel heitur og miðjan í honum bráðin. Berið fram með því að taka lokið af ostinum og síðan er kartöflubátum, gúrkum og brauði dýft í hann.

*Með heitum ostinum má nota hvaða meðlæti sem er, þetta er einungis öðruvísi hugmynd.

 

Bakaðir ostar II

 

1 Stóri Dímon, Kastali eða Camembert

2 msk púðursykur

1 msk balsamedik

4 sneiðar hráskinka

2 msk ristaðar furuhnetur

3 þurrkaðar fíkjur, skornar í strimla

 

Hitið ofn í 200 gráður. Hrærið saman púðursykur og balsamedik. Leggið þann ost á álpappír sem valinn er og hellið blöndunni yfir hann, veltið ostinum upp úr henni báðum megin. Vefjið hann þétt með hráskinku og dreifið fíkjum og furuhnetum yfir. Pakkið ostinum inn í álpappírinn. Setjið í ofn í 10 mínútur, takið þá ostinn út og opnið álpappírinn. Stingið aftur í ofn í 5 mínútur. Berið ostinn fram heitan með bagettusneiðum eða góðu kexi.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!