Halla Bára og Gunnar
Ostakjúklingur á pastabeði - salt mætir sætu
10. apríl 2017

Ostakjúklingur á pastabeði - salt mætir sætu

Hugmynd að rétti í anda kjúklings með parmesanosti. Osturinn Tindur frá MS er ótrúlega góður á kjúkling, rifinn niður og notaður sem hjúpur á kjúklingabita eða strimla. Fyrir utan það er hann mjög góður rifinn niður yfir pasta.

Heima hjá okkur þykir mjög gott að hafa kjúklingabita sem þessa með frekar kremkenndri sósu sem er full af mýktri papriku, sem gerir hana sæta og mjúka á móti söltuðum ostinum. Á pastabeði verður þetta verulega ljúffengur og matarmikill réttur sem nánast öllum þykir góður. Fyrir utan að vera góður beint úr ofninum, þá er kjúklingurinn mjög fínn daginn eftir; skorinn í bita, hitaður aftur á pönnu og hrærður saman við pastað og sósuna.

 

4 kjúklingabringur, skornar í strimla

2 egg, hrærð

5 msk. hveiti

salt og pipar

5-7 dl rifinn Tindur, magn fer eftir því hvað vilji er til að hjúpa kjúklinginn vel

 

Hitið ofn í 200 gráður. Veltið kjúklingi upp úr hveiti, eggi og osti. Raðið á ofnplötu eða í form.  Eldið þar til kjúklingurinn er klár alveg í gegn, fer algjörlega eftir stærð bitanna.

 

4 paprikur, rauðar og gular, skornar smátt

1 blaðlaukur eða rauðlaukur, skorinn smátt

ólífuolía

3 msk. rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn

2 dl rjómi

2 dl pastasoð

smakkið til með salti og pipar, jafnvel smá chillípipardufti

300-400 g pastaskrúfur eða tagliatelle

 

Mýkið paprikur og lauk í góðri ólífuolíu á pönnu, í um 10-15 mínútur. Setjið rjómaost saman við og látið bráðna saman. Hellið rjóma á pönnuna og látið suðu koma upp. Kryddið og smakkið til.

Sjóðið pasta, þegar það er að verða klárt, takið þá smá pastasoð frá og bætið í nokkrum skömmtum saman við sósuna, eins og þurfa þykir til að ná góðri áferð á hana.

Sósuna má hræra saman við pastað eða setja hana á pastað fyrir hvern og einn. Þá fer kjúklingurinn yfir herlegheitin. Berið fram.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!