Halla Bára og Gunnar
Önnur hugmynd að góðgæti í fermingarveisluna
23. mars 2015

Önnur hugmynd að góðgæti í fermingarveisluna

Það er eitthvað svo ferskt og fallegt við þessa köku að hún er eins og sniðin í góða fermingarveislu. Sítrónur í páskalit, ferskt bragð af vori, mjúk fylling í munni, stökkur botn sem vekur mann og marengs á toppnum sem minnir enn á snjóinn í fjöllunum. Í raun er þessi kaka ómótstæðileg!

Uppskriftin er ekki stutt en hún er ekki flókin. Það má líka fara styttri leið að henni með því að kaupa tilbúið bökudeig… og jafnvel svindla enn meira og kaupa gæða lemon-curd í sælkerabúð í stað fyllingarinnar. En marengsinn komist þið ekki hjá að gera enda er hann aðalatriðið í bragðsamsetningunni og útlitinu. Þessi kaka er ávísun á glaða gesti, það er okkar reynsla. 

Sítrónubaka með marengstoppi

Bökubotn:

2/3 bolli smjör

1/3 bolli kalt vatn

1 tsk edik að eigin vali

1 1/3 bolli hveiti

1 msk sykur

1/2 tsk salt

 

Fylling:

1 bolli sykur

1/3 bolli kartöflumjöl

1 bolli vatn

1/2 bolli sítrónusafi

6 eggjarauður

1 msk sítrónubörkur


3 msk smjör

 

Marengs:

1 bolli sykur

1 msk kartöflumjöl

1/2 bolli vatn

6 eggjahvítur

1/8 tsk salt


1 tsk cream of tartar


1 tsk vanilludropar

 

Bökubotn

Hitið ofn í 180 gráður. Skerið smjör í bita og stingið í frysti í 20 mínútur. Blandið vatni og ediki saman og stingið sömuleiðis í frysti.

Blandið saman hveiti, sykri og salti og myljið ískalt smjörið saman við þurrefnin með hníf svo úr verði gróf mylsna. Hellið vatninu saman við og hrærið með gaffli þar til deigið tekur að loða saman. Hnoðið þá í höndunum og myndið kúlu. Það gæti þurft að bæta smá vatni eða hveiti við deigið. Frystið deigið í 20 mínútur.

Að því loknu skal rúlla deigið út og í þá stærð sem bökuformið sem nota skal segir til um, um 23 cm. Gætið að því að hafa deigið ekki of þykkt. Þrýstið því vel en varlega niður í formið og út í kantana. Stingið botninn með gaffli en gætið að því að stinga ekki í gegnum deigið. Leggið álpappír yfir deigið og þurrar baunir ofan í sem farg. Bakið í 10 mínútur. Fjarlægið þá fargið og álpappírinn og bakið í aðrar 10 mínútur eða þar til botninn er gullinn.

Athugið að hér má flýta fyrir sér og kaupa tilbúið bökudeig og baka það skv. leiðbeiningum eða skv. því sem hér segir.

 

Fylling

Hrærið saman sykur og kartöflumjöl í meðalstórum potti. Bætið örlitlu af vatninu saman við og hrærið þar til sykurinn hefur leyst upp og kartöflumjölið er kekkjalaust. Setjið þá afganginn af vatninu saman við ásamt sítrónusafanum og hrærið þar til mjúkt og kekkjalaust. Hitið blönduna á miðlungshita, hrærið vel í henni í 5 mínútur, þar til hún hefur þykknað og er orðin glær. Setjið nú eggjarauðurnar saman við ásamt sítrónuberkinum og hrærið í aðrar 2 mínútur. Hér á blandan að ná suðu og sjóða létt. Takið pottinn af hitanum og hrærið smjörið saman við blönduna. Látið kólna í 10 mínútur og smyrjið þá blönduna í bakaðan bökubotninn. Stingið í ísskáp í 2 klukkutíma.

 

Marengs

Hitið ofn í 190 gráður. Blandið saman sykri og kartöflumjöli í litlum potti. Hellið vatni saman við og hrærið vel. Hitið á miðlungshita og komið upp suðu, látið sjóða nokkuð kröftugt í 4 mínútur og hrærið annað slagið í pottinum. Sírópið skal ná 234 til 240 gráðu hita (sértu með hitamæli) eða vera á því stigi að það taki að þykkna.

Á meðan sírópið sýður hrærið eggjahvíturnar ásamt salti og cream of tartar þar til hvíturnar taka að stífna. Þá hellið þið sírópinu út til hliðanna á skálinni með hvítunum og hrærið vel í með þeytara á meðan. Hellið þá vanilludropunum saman við. Hrærið hvíturnar þar til þær eru stífar og gljáandi. Smyrjið þeim varlega og vel ofan á sítrónufyllinguna, út til hliðanna og yfir botninn. Sem sagt, marengsinn lokar bökunni. Reynið að smyrja marengsinn fallega og forma í hann toppa og tinda.

Bakið í 6-8 mínútur eða þar til marengsinn hefur gullna tinda og slykju yfir sér. Takið úr ofninum, látið kólna örlítið og berið fram. Kakan er ekki síður góð vel köld og daginn eftir. Sumir vilja rjóma með og aðrir ekki en a.m.k. er tími til að njóta verksins. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!