Halla Bára og Gunnar
Nutella-sunnudagur í lagi!
20. nóvember 2015

Nutella-sunnudagur í lagi!

Eins og við höfum áður nefnt hér á blogginu þá á fjölskyldan það sameiginlegt að vera áhugasöm um Nutella. Kemur það til vegna áralangs áhuga á ítölskum mat og matargerð og Nutella má ekki gleymast þegar kemur að honum. Um síðustu helgi var Nutella-sunnudagur í bústaðnum en þá voru gerðar uppskriftir sem við deilum hér. Nutella-latte, Nutella-kakó og hnetusmjörs-Nutella-kökur. Þetta sló í gegn og því full ástæða til að deila gleðinni. Við fjölskyldan skorum á ykkur að prófa og eiga góðan Nutella-sunndag um helgina.

Nutella-latte

Góður espresso kaffibolli, nýuppáhellt kaffi

1-2 tsk af Nutella

Flóuð mjólk

Kakó til skrauts

 

Hellið upp á kaffi. Setjið Nutella saman við kaffið og hrærið þar til súkkulaðið leysist upp. Hellið flóaðri mjólk saman við. Sigtið smá kakó yfir til skrauts. Drekkið strax.

 

Nutella-kakó

1-2 tsk Nutella

Flóuð mjólk

Kakó til skrauts

 

Flóið mjólkina og hellið smá í bolla. Leysið Nutella upp í mjólkinni og hellið síðan afgangnum saman við. Skreytið með kakói og berið fram.

 

Nutella-kökur

100 g mjúkt smjör

1/3 bolli sykur

1/3 bolli púðursykur

1 egg

1 bolli gróft hnetusmjör

½ tsk vanilludropar

1 ½ bolli hveiti

½ tsk lyftiduft

½ tsk natron

½ tsk salt

Nutella

 

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman smjör og sykur ásamt eggi og vanilludropum þar til létt og ljóst. Setjið hnetusmjör saman við og hrærið. Þá fara þurrefnin saman við en athugið að það gæti þurft aðeins minna hveiti í deigið. Það á að vera stíft en má ekki vera of stíft. Hrærið vel saman.

Mótið kúlur úr deiginu, ekki hafa þær voða stórar, og raðið á plötu með smjörpappír. Þrýstið þeim aðeins niður svo þær verði flatari. Stingið í ofn og bakið í fimm mínútur. Takið þá úr ofninum og þrýstið ofan í hverja köku hálfgerða skál sem síðar er fyrir Nutella. Bakið áfram í um sjö mínútur. Takið þá úr ofninum og fyllið skálarnar með Nutella. Látið kólna og berið fram. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!