Halla Bára og Gunnar
Nutella-pizza
20. júlí 2015

Nutella-pizza

Já, Nutella-pizza! Það er rétt. Ítalir elska Nutella og það gerum við fjölskyldan líka. Nutella er staðalbúnaður í brauðskúffunni hjá okkur. Það má alltaf grípa til Nutella og skella á ristað brauð ef allt annað þrýtur og þetta týpíska ástand kemur upp að gjörsamlega ekkert er til. Ítalskur vinur okkar kemst ekki í gegnum daginn nema byrja hann á brauði með Nutella!

Nutella-pizza er sennilega það sem dætrum okkar þótti það eftirminnilegasta sem þær fengu að borða í Ítalíuferðinni okkar. Þær gjörsamlega féllu í stafi. Og einfaldara getur það heldur ekki orðið. Hugmyndin var útfærð um leið og við komum heim og á eftir að vera á okkar borðum um aldur og ævi.

Hér þarf enga uppskrift. Málið er einfalt. Þú kaupir pizzudeig eða gerir þitt eigið. Fletur út botn og gætir að því að hafa hann um 1 cm að þykkt. Botninum skellir þú í ofninn og bakar hann þar til hann er mjúkur og fallegur. Ekki baka hann þannig að hann verði stökkur. Hér þarf botninn aðeins að kólna svo hægt sé að meðhöndla hann. Þá er hann skorinn þvert svo úr verði tveir botnar og Nutella smurt á báða hlutana, ekki spara, alls ekki! Svo leggur þú botnana saman og stráir smá flórsykri yfir og berð fram. Tilbúið.

Öllum þykir þetta gott og nú þegar afmælishátíðirnar nálgast hjá dömunum okkar, verður gripið í þessa hugmynd oftar en einu sinni. Við skorum á ykkur að prófa þetta með ís eða þeyttum rjóma. Verði ykkur að góðu! 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!