Halla Bára og Gunnar
Mozzarella á pizzuna mína!
25. júní 2015

Mozzarella á pizzuna mína!

Eitt kvöldið í Locorotondo í Puglia, á suðaustur-strönd Ítalíu, vildu dætur okkar pizzu (nota bene eftir að hafa borðað pasta í hádeginu en hjá þeim er lífið pasta og pizzur og þær alsælar). Við höfðum fundið okkur krúttlegan stað til að borða á en þær vildu annað svo við spurðum þjóninn á þeim stað hvar væri pizzeria með góðum pizzum að hennar mati. Hún benti okkur á að fara fyrir hornið sem og við gerðum (…í þessum fallega bæ þar sem pizzerian var í þröngri götu og setið úti við).

 

Á pizzeriunni var úrval af pizzum og þær flokkaðar niður í fjóra flokka; hefðbundnar, hvítar án tómatsósu, án tómatsósu og mozzarella og loks sérstakar. Pantaðar voru tvær margarítur og svo úr flokkunum sérstakar og án tómatsósu. Það er óhætt að segja að pizzurnar hafi verið góðar og fengið hjá okkur toppeinkunn. En það sem einkenndi þær var mozzarellaosturinn. Hér á Ítalíu er ekki notaður ostur á pizzur eins og tíðkast t.d. Íslandi heldur hreinn mozzarellaostur. Og það er einmitt það sem okkur langar að hvetja ykkur til að prófa með þessum pósti okkar – að nota ferskan mozzarella á pizzuna og rífa hann gróft niður. Sleppa venjulegum osti. Hér fylgja með tvær hugmyndir að pizzusamsetningum sem óhætt er að mæla með.

 

Pizza án tómatsósu með grilluðu grænmeti

Kúrbítur, eggaldin, gul og rauð paprika, skorið í strimla og sneiðar. Velt upp úr ólífuolíu, saltað aðeins og piprað. Grillað á grillpönnu eða stungið í ofn þar til eldað mjúkt og fallega. Mozzarellakúla rifin yfir pizzabotninn og grillaða grænmetinu dreift yfir. Bakað og svo borið fram heitt og girnilegt.

 

Pizza með salami og ólífum

Pizzabotn er smurður með góðri tómatsósu. Mozzarellakúla er rifin yfir og ekki spara ostinn. Salamipylsa, helst mjög þunnt skorin (fæst gjarnan erlend eins og hráskinkan) fer þá yfir ostinn og að lokum svartar gæðaólífur (skiptir öllu máli að hafa þær smáar og virkilega vandaðar). Bakað og borið fram heitt og girnilegt.

 

Rjómaostur

Athugið að til að gera pizzuna enn meira djúsí má setja á hana dropa af hreinum rjómaosti hér og þar áður en hún fer í ofninn. Ítalir nota töluvert af rjómaosti á pizzur og við erum búin að fá okkur eina slíka í ferðinni. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!