Halla Bára og Gunnar
Moðsteikt lambalæri og bernaise - páskamatur upp á gamla mátann
23. mars 2016

Moðsteikt lambalæri og bernaise - páskamatur upp á gamla mátann

Hér kemur smá saga sem má byggja á til að útbúa klassískan en staðgóðan páskamat. Við ákváðum að elda lambalæri á pálmasunnudag, með bernaise-sósu, pönnusteiktum snjóbaunum og bökuðum kartöflum. Í eftirmat var gamaldags ávaxtasalat. Ótrúlega ljúffengt. En það sem meira er að góður afgangur var af kjötinu og daginn eftir var hann notaður í ragú-pastasósu með tagliatelle. Vel farið með matinn.

Lambalæri

Gunnar setti lærið inn í ofn um tvö og var með það í fimm tíma í ofninum á 110 gráðum og síðustu 40 mínúturnar á 180 gráðum án loks til að fá á það aðeins harðari skráp á toppinn. Hann kryddaði með salti, pipar og óreganó og setti vatn, ólífuolíu og hvítvínsedik í ofnpottin þannig að flaut aðeins upp á kjötið. Potturinn var lokaður. Þannig fékk kjötið að eldast og vera í friði. Kartöflurnar fengu sömu meðferð; vafðar í álpappír og voru í ofninum með kjötinu allan tímann.

Það eina sem þurfti að gera þegar nær dró matartíma var að smjörsteikja snjóbaunir í smjöri á pönnu í nokkrar mínútur og gera bernaissósuna.

 

Bernaissósa

Bernaissósan sem við gerum er alltaf sú sama. Aðferð frá veitingahúsinu Bautanum á Akureyri. Ótrúlega þægileg aðferð og hún á ekki að klikka til að ná sósunni jafnri og vel loftkenndri. Hlutföllin í henni er þægileg til að stækka og minnka sósuskammtinn eftir þörfum.

 

3 eggjarauður

1 tsk bernais-essens

1 msk vatn

1 msk tarragon, estragon eða steinselja, þurrkað eða ferskt

300 g brætt smjör

má vera smá salt og pipar eða örlítill kraftur

 

Hrærið eggjarauður, essens, krydd og vatn saman í hrærivél eða með handþeytara þar til mjög létt og loftkennt. Bræðið smjörið. Hellið smjörinu í mjórri bunu saman við eggin, hægt og rólega, og hrærið í á meðan. Náið sósunni jafnri og fallegri í áferð. Berið fram.

 

Ragú-pastasósa

Athugið þá hugmynd að nota afganginn af kjötinu í ragú-pastasósu. Þá mýkið þið hvítlauk í olíu í potti. Rífið kjötið út í pottinn og hellið góðum niðursoðnum tómötum saman við. Kryddið eftir smekk, þarf að krydda svolítið til að ná fram bragði. Látið malla að vild. Berið fram á tagliatelle með rifnum parmesanosti.

 

Ávaxtasalat

Í eftirrétt með páskalambinu vorum við með gamaldags ávaxtasalat sem við kennum alltaf við bústaðinn okkar. Ávextir að vild, skornir í bita og blandað saman við þeyttan rjóma með súkkulaðispæni. Við notuðum epli, ananas, appelsínur og banana. Afgangurinn er jafn góður daginn eftir, jafnvel sem morgunmatur! Gleðilega páska frá okkur.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!