Halla Bára og Gunnar
Lasagna er hátíðarmatur
04. september 2014

Lasagna er hátíðarmatur

Lasagna er ekki bara lasagna! Satt að segja er vandað lasagna á borðum margra Ítala um jólin enda er rétturinn einstakur að bera fram þegar margir koma saman. Gunnar hefur í gegnum tíðina masterað það að gera sem besta bolognese-kjötsósu og þegar kemur að lasagna skiptum við með okkur verkum. Hann gerir kjötsósuna eftir sínu höfði og ég bechamel-sósuna. Nú hefur nýtt verk bæst við í ferlið og það er að við gerum pastaplöturnar sjálf.

Um daginn ákváðum við að gera lasagna frá grunni til að halda upp á flutning fjölskyldunnar enda sannkölluð hátíð þar á ferð. Gunnar gerði kjötsósu sem var látin malla klukkutímum saman og ætti miklu frekar að kallast ragú-sósa þar sem hann notaði flankasteik og svínahakk í stað þess að nota nautahakk á móti svíninu. Þetta var sannkallaður dýrðarréttur, sem við gefum uppskrift að hér, og skorum á ykkur að prófa við hátíðlegt tækifæri. Þetta er sáraeinföld matreiðsla en það sem skiptir máli er að gefa henni tíma. Fyrir þá sem vilja skemmir ekki fyrir að gera pastaplöturnar sjálfur en það er samt aukaatriði og við gefum ekki uppskrift að fersku pasta hér.

 

Kjötsósan er að sjálfsögðu einstök sem bolognese-sósa með spagettíi og þegar við eldum svona sósu þá eldum við mikið magn og setjum í frysti. Við mælum eindregið með því.

Flytið lasagna upp í hæstu hæðir og njótið þess sem hátíðarréttar með besta fólkinu ykkar.

 

 

Bolognese-sósa / ragúsósa:

 

500 g flankasteik eða annað nautakjöt sem hentar til hægeldunar

2-3 msk ólífuolía

1 dl vatn

 

2 sellerístilkar, smátt skornir

2 laukar, smátt skornir

4 stórar gulrætur, smátt skornar

200 g beikon, skorið í bita

500 g svínahakk

4 dósir niðursoðnir tómatar

1 msk tómatpaste

salt og chillíduft

hnefafylli fersk basilíka, gróft skorin

 

8-10 lasagnaplötur, ferskar eða þurrkaðar

1 kúla rifinn mosarellaostur

 

Hitið ofn í 120 gráður. Byrjið á því að setja flankasteikina í ofnpott, saltið hana örlítið. Dreypið ólífuolíu yfir og vatni, svo þeki botninn á pottinum. Hafið í ofninum í þrjá til fjóra tíma eða þar til auðvelt er að rífa kjötið niður og það er lungamjúkt. Rífið kjötið niður að eldunartíma loknum.

 

Notið stóran pott undir sósuna. Mýkið grænmeti upp í góðri ólífuolíu. Setjið þá hakk saman við ásamt beikoni og hrærið vel. Hellið tómötum yfir ásamt tómatpaste. Saltið aðeins og piprið. Blandið öllu vel saman. Hafið pottinn á lágum hita og látið suðuna koma upp undir sósunni. Lækkið þá hitann og hafið hann mjög lágan en þannig að sósan malli. Því lengri tíma sem sósan fær, því betri verður hún.

 

Nú skal blanda rifna nautakjötinu saman við kjötsósuna ásamt basilíkunni og leyfa öllu að malla saman í um hálftíma.

 

 

Bechamel-sósa:

 

50 g smjör

5 msk hveiti

4-5 dl mjólk

salt og pipar

½ tsk múskat

1 dl fínt rifinn parmesanostur

 

Bræðið smjör í potti. Hrærið hveiti saman og úr verður smjörbolla. Hellið smá mjólk út í og hrærið mjög vel þar til smjörbollan tekur að leysast upp. Hellið meiri mjólk og hrærið, haldið áfram í þessu ferli þar til smjörbollan er orðin að kekkjalausum jafningi. Athugið að magn á mjólk sem þarf í sósuna getur verið mjög mismunandi. Hrærið parmesanost saman við og látið hann bráðna vel. Kryddið með múskati og smakkið til með salti og pipar.

 

 

Hitið ofn í 180 gráður. Finnið til gott ofnfast mót fyrir lasagna. Setjið þunnt lag af kjötsósu í botninn á mótinu og lasagnaplötur yfir. Þá fer vænt lag af kjötsósu yfir plöturnar, lag af bechamel-sósunni og aftur lasagnaplötur. Endurtakið ferlið eins oft og mótið leyfir. Það er mjög flott af ná nokkrum hæðum. Ljúkið lögunum á plötum og sósu yfir þær. Rífið niður mosarellakúluna og stráið yfir sósuna. Stingið í ofn í 40 mínútur. Takið þá úr ofninum og látið standa í dágóða stund áður en borið fram svo betra sé að skera réttinn og hann sé fallegri á diski. Of heitt lasagna bragðast heldur ekki eins vel og það sem hefur fengið að standa sinn stöðutíma.

Njótið þessa dýrindisréttar og veltið fyrir ykkur hversu gaman var að elda hann og hversu gaman er að bera hann fram fyrir þá sem skipta mann máli!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!