Halla Bára og Gunnar
„Kótiletta” Milanese
25. september 2015

„Kótiletta” Milanese

Þetta er alls ekki uppskrift að kótilettum upp á íslensku en á ítölsku heitir rétturinn cotoletta alla milanese og mér fannst bara rétt að þýða hann beint! Milanese, eins og við köllum þennan rétt alltaf, er dæmi um mat sem má bjóða allri fjölskyldunni. Litla skottið okkar, sem nánast ekkert kjöt vill borða, samþykkir þetta algjörlega.

Rétturinn byggist á kjötsneið í raspi – þó ekki hvaða kjöti sem er því á Ítalíu er hann eingöngu gerður með kálfakjöti sem er lungamjúkt og barið niður í þunna sneið. Sneiðinni er tvívegis velt upp úr góðu raspi og hún svo steikt á pönnu. Í stað kálfakjöts er gjarnan mælt með kalkúnakjöti, sem er líka virkilega gott, en ekki auðvelt að nálgast. Í smá „hallæri” má því nota svínakjöt, kótilettu, þar sem beinið hefur verið fjarlægt en þá þarf að berja hana niður og þynna vel.

Með þessum rétti berum við fram þrjár útgáfur af meðlæti eftir hentugleika; soðið grænmeti og kartöflustöppu, spagettí með heimagerðri tómatsósu eða ferskt salat og parmesanost. Alltaf er sítrónubátur með til að kreista yfir sneiðina en ekki eru allir Ítalir sammála því þar sem þeim þykir það skemma stökka skorpuna utan um kjötið. En hér er uppskrift að milanese og þið sjáið sjálf um meðlætið!

Þetta magn má hugsa fyrir fjóra.

 

4 vænar sneiðar af kálfakjöti; kalkúnn eða svín í staðinn

1 bolli gott brauðrasp

4 egg, hrærð

salt og svartur pipar

4 msk smjör

sítrónubátar

 

Fjarlægið bein úr kjötsneiðunum, berjið þær varlega niður með kjöthamri eða notið kökukefli og þynnið án þess að rífa þær. Gott að gera þetta á þann hátt að kjötsneiðin er á milli smjörpappírsblaða eða í plastfilmu.

Hellið brauðraspinu í stóra skál og hrærið eggin sömuleiðis í rúmri skál. Saltið og piprið eggin. Veltið kjötsneiðunum upp úr raspi, þá upp úr eggi og svo aftur upp úr raspi. Þrýstið létt á raspið til að það tolli vel. Þetta má gera í tíma og geyma í ísskáp.

Bræðið smjör á pönnu, steikið sneiðarnar þar til gullnar á báðum hliðum. Athugið að þær séu eldaðar í gegn. Berið fram…með sítrónu.

Ef við erum að steikja nokkuð margar sneiðar þá steikjum við þær þar til raspið er stökkt og gullið og skellum þeim í ofn í nokkrar mínútur til að klára að elda þær. Það er þægileg aðferð til að vera viss um að raspið brenni ekki sem og að kjötið sé eldað í gegn. Líka til að bera þær fram heitar. 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!