Halla Bára og Gunnar
Klassískt salat með fersku ívafi og góðum tilbrigðum
11. ágúst 2016

Klassískt salat með fersku ívafi og góðum tilbrigðum

Fyrir nokkrum árum vorum við í Barcelona og borðuðum á ágætis veitingastað sem heitir Brown. Þar fengum við okkur salat, sem er ekki í frásögur færandi, nema að það var skemmtilega samsett þar sem grunnurinn byggðist á hefðbundu Caprese-salati (tómötum og mozzarella). Þetta salat poppaði upp í minningunni rétt um daginn og við urðum að prófa það aftur. 

Eins og með öll salöt má fabúlera endalaust, breyta og bæta eftir smekk og hvort salatið er borið fram sem meðlæti eða aðalréttur. Hér er ekki tilgreint magn, heldur er frekar um hugmynd að ræða, eins og á við svo oft um salöt. Viðbót í salatið getur verið ristaðar furuhnetur, balsamikgljáðar pecanhnetur, hráskinka, bresaola-sneiðar, plómur, ferskjur, bláber. Einnig kjúklingur í einhverju formi. Í upprunalegu uppskriftinni var ríkottaostur á salatinu, en hann er ekki alltaf til og kotasæla er mjög góður staðgengill. Í stað þess að bera hana fram á hefðbundinn hátt er betra að mauka hana og hafa hana fínni í forminu.

Klassískt salat með fersku ívafi og góðum tilbrigðum

klettasalat eða romain-salat

basilíka, rifin eða söxuð

kóríander, laufin tekin af stilkunum

góð ólífuolía

salt og svartur pipar

tómatar, sneiddir eða kirsuberjatómatar

mangó, skorið í teninga

mozzarella, rifinn niður

maukuð, hrein kotasæla eða ríkottaostur

balsamikedik

 

Hrærið saman salat, basilíku og kóríander og leggið á disk. Dreypið olíu yfir, setjið örlítið salt og pipar. Stingið tómötum hér og þar, dreifið mangói yfir sem og mozzarella. Setjið litlar kúlur af kotasælu á miðju disksins. Dreypið ediki yfir. Berið fram. 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!