Halla Bára og Gunnar
Kjúklingasalat - hugmynd að góðri máltíð
11. október 2016

Kjúklingasalat - hugmynd að góðri máltíð

Staðreyndin er sú að upp getur komið það vandamál að maður hefur ekki orku eða nennu til að elda og langar alls ekki í keyptan mat eða skyndibita. Hvað er þá til ráða? Við eigum okkur eina uppskrift sem virkar vel þegar þetta gerist og maður er sáttur og saddur að máltíð lokinni. Athugið að hér borgar sig ekki að gefa upp mál því slíkt fer alfarið eftir smekk og tilfinningu hvers og eins. Þetta er því kannski meira hugmynd að góðri máltíð en nokkuð annað. 
 
Kjúklingasalat 
- með sólþurrkuðum tómötum, grillaðri papriku og mozzarella
 
Grillaður kjúklingur, hér má kaupa hann tilbúinn til að einfalda málið
Sólþurrkaðir tómatar, úr krukku, skornir smærra
Grilluð paprika, úr krukku, skorin smærra
Fersk basilíka, rifin niður
Klettasalat
Mozzarellaostur, rifinn niður - hér má að sjálfsögðu nota annan ost
Góð ólífuolía
Salt og pipar
Parmesanostur
 
Rífið kjötið niður eða skerið í bita. Setjið í skál ásamt tómötum, papriku, basilíku, mozzarella, vænni slettu af olíu og saltið allt og piprið að ykkar smekk. Leggið klettasalatið á disk, hér má dreypa olíu yfir salatið og jafnvel smá sítrónusafa ef hann er við hendina. Kjúklingasalatið fer ofan á klettasalatið og gott er að strá parmesanosti yfir að lokum. Viti menn – frábær máltíð sem ekki bregst. 
 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!