Halla Bára og Gunnar
Í smáu formi
01. desember 2013

Í smáu formi

Vikurnar fram að jólum einkennast mikið til af því að fólk hittist og heldur jafnvel veislu. Þessar veislur er bæði formlegar og óformlegar en það er bara svo gaman að því að fólk komi saman og njóti þess á einhvern hátt og án of mikillar fyrirhafnar að borða! Réttirnir sem boðið er upp á í slíkum boðum þurfa að búa yfir þeim eiginleika að vera þægilegir og hæfilega einfaldir í vinnslu svo allir njóti augnabliksins. Smáréttir ýmiss konar eru vinsælir með góðum drykk, henta sem munnbitar með fordrykk eða litlir réttir í standandi boð. Í boðinu hjá okkur að þessu sinni eru þrír litlir smáréttir þar sem hráefnið hæfir árstímanum og leikið er með osta.

 

Takið eftir að hér er auðvelt að leika með magnið í þessum réttum eftir fjölda gesta sem og hvort vilji er til að hafa réttinn sem munnbita eða í snittustærð.

 

 

Rauðbeðusalat með timían og rjómaosti

 

Lítil rauðrófa, skorin í smáa teninga

Smjörklípa

Salt og pipar

1 msk hunang, Agave-sýróp eða Maple-sýróp

1 msk balsamikedik

Ferskt timían, um 4 greinar

Rjómaostur

Gróft rúgbrauð*

 

Bræðið smjör á pönnu og steikið rauðbeðuteningana á vægum hita þar til þeir eru mjúkir í gegn. Dreypið örlítilli sætu yfir í formi sýróps eða hunangs. Saltið aðeins og piprið. Dreypið balsamikediki yfir og látið karameliserast. Rífið blöðin af timíangreinunum og hrærið saman við blönduna. Smyrjið brauðsneiðar með rjómaosti, ekki spara hann, hann skiptir máli. Setjið rauðbeðusalat yfir, nokkra balsamikediksdropa og timían til skrauts. Berið fram.

 

*Hægt er að nota ýmislegt brauð í snitturnar. Gróft kornbrauð, rúgbrauð eða grilla bagettusneiðar og dreypa olíu yfir. Ekki er gefið upp magn af brauðinu því það þarf að ráðast af því hve stór bitinn á að vera, munnbiti eða jafnvel snitta.

 

 

Kartöflukökur með reyktum laxi/silungi og piparrótarsósu

 

200-300 g reyktur lax/silungur, skorinn í þunnar sneiðar

 

Kartöflukökur:

2 stórar kartöflur, rifnar gróft niður*

2 msk brætt smjör

3 msk hveiti

 

Sósa:

4 msk sýrður rjómi

örlítið af rifinni piparrót**

1 tsk hvítvínsedik

salt og svartur pipar

 

2/3 poki klettasalat eða annað gott salat

1 msk ólífuolía

1 msk sítrónusafi

salt og pipar

 

Blandið saman rifnum kartöflum, smjöri og hveiti. Búið til kökur úr deiginu og stærðin verður að fara eftir því hvort nota á réttinn sem smárétt eða forrétt. Sáldrið örlitlu af hveiti yfir kökurnar áður þær eru steiktar í olíu á pönnu þar til gullnar og kartöflurnar mjúkar í gegn. Ef þið hafið kökurnar frekar stórar er betra að skella þeim aðeins í heitan ofn eftir steikingu og láta þær ná mýkt í gegn á þann hátt svo þær brenni ekki eða verði of harðar.

Hrærið saman sýrðan rjóma, piparrót og hvítvínsedik í sósuna, smakkið með salti og pipar. Hrærið saman ólífuolíu, sítrónusafa og smakkið til með salti og pipar. Dreypið þessu yfir salatið.***

Leggið kartöfluköku á disk, salat, lax/silung og slettu af sósu. Skreytið með smátt skornum tómatbáti, graslauk, smá basilíkublaði eða einhverju öðru fallegu. Berið fram.

 

*Hér má nota afgang af kartöflustöppu í staðinn.

 

**Ef ekki fæst piparrót má nota piparrótarmauk en einnig gengur að setja smátt saxaðan vorlauk eða graslauk út í sýrða rjómann.

 

***Magn olíu og sítrónusafa verður að fara eftir því hversu mikið salat er notað. Það þarf lítið á salatið.

 

  

Míní-skonsa með ostasalati og perum

 

Skonsa:

125 g hveiti

2 egg

1 1/3 dl mjólk

2 msk fersk steinselja, söxuð

2 tsk fersk salvía, timían eða basilíka, saxað

 

Salat:

75 g rjómaostur

1 tsk gott sýróp eða hunang

50 g Kastali, Camembert, Brie skorinn í litla teninga

50 g Búri, Havarti, piparostur, gráðaostur eða annar ostur í uppáhaldi, skorinn í litla teninga*

30 g valhnetur eða pecanhnetur, ristaðar og saxaðar

1 pera, helmingurinn skorinn í litla teninga, hinn í þykkar sneiðar sem aftur eru skornar þvert**

 

8-10 sneiðar hráskinka eða beikon, skorið í 4 cm lengjur

 

Hrærið saman mjólk og egg, blandið hveiti saman við og þá kryddjurtum. Hnoðið þar til mjúkt en ekki of mikið svo deigið verði ekki stíft. Hitið olíu á pönnu eða spreyið pönnuna með olíuspreyi. Takið örlítið af deigi og veltið milli fingra ykkar þannig að úr myndist lítil og flöt kúla. Setjið á meðalheita pönnuna og fletjið meira út svo kakan verði um 5 mm á þykkt. Steikið á báðum hliðum þar til kakan er gullin og bökuð í gegn.

Steikið hráskinku eða beikon á þurri pönnu þar til hún er stökk.

Hrærið saman rjómaost og sýróp. Blandið ostateningum, hnetum og perubitum saman við.

Setjið skonsu á disk, hráskinkulengju og ostasalat yfir. Skreytið með perubitum og einhverju grænu, sbr. smá steinselju. Berið fram.

 

*Það má nota hvaða ost sem er í þetta salat, eina tegund, margar, afganga úr ísskápnum.

 

**Þótt hér sé notuð pera er einnig gott að nota lítil og steinlaus vínber.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!