Halla Bára og Gunnar
Hvað eru páskar án súkkulaðis? Súkkulaði í tveimur litum
11. apríl 2014

Hvað eru páskar án súkkulaðis? Súkkulaði í tveimur litum

Fyrirsögnin er staðreynd. Við tengjum páskana órjúfanlegum súkkulaðiböndum! Því er við hæfi að koma með uppskriftir á þessum tíma að tveimur ljúffengum súkkulaðikökum sem eru eins og svart og hvítt. Hvíta kakan er silkikennd og bráðnar í munni. Sú dökka er svo mjúk og ekta að það væri hægt að hafa um hana miklu fleiri orð. Báðar eru tilvaldar við hátíðleg tækifæri, sama hversu merkileg þau eru, og hafa ávallt glatt þá sem þeirra hafa notið.

Hvít súkkulaðitrufflukaka

 • 200 g hafrakex
 • 100 g smjör, bráðið
 • 500 g hvítt súkkulaði, Cadbury´s fer vel
 • 1 vanillustöng, fræin eingöngu
 • 700 ml rjómi
 • 5 matarlímsblöð
 • ¼ bolli vatn, hitað að suðu
 • ber til skrauts

Myljið kexið í matvinnsluvél og hrærið smjörið vel saman við. Klippið smjörpappír til að setja í botninn á 23 cm springformi. Þrýstið kexmulningnum í formið og kælið í 30 mínútur.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Skafið fræin úr vanillustönginni og setjið út í rjómann. Þeytið hann þar til hann fer að halda vel lögun sinni, alls ekki of mikið.

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn og mýkið upp í 5 mín. Hitið tæplega ¼ bolla af vatni að suðu. Takið pottinn af hellunni, kreistið aðeins kalda vatnið úr mjúku matarlímsblöðunum. Setjið eitt í einu út í heita vatnið og leysið upp blöðin. Hellið súkkulaðinu í mjórri bunu út í þeyttan rjómann og hrærið varlega. Blandið vel. Hellið matarlímsblöndunni varlega út í súkkulaðirjómann, hrærið vandlega en varlega og blandið vel. Hellið yfir kexbotninn og látið standa í ísskáp í a.m.k. 4 klukkustundir eða yfir nótt.

Bráðupplagt er að gera þessa köku kvöldið fyrir veislu. Skreytið samdægurs með berjum eða öðru fallegu.

Lúxussúkkulaðikaka á fjórum hæðum

Botnar:

 • 200 g hveiti
 • 70 g kakó (10 msk)
 • 3 tsk lyftiduft
 • 1/4 tsk natron
 • 1/2 tsk salt
 • 6 egg, við stofuhita
 • 1 1/2 dl mjólk
 • 3 msk kalt kaffi
 • 2 tsk vanilludropar
 • 200 g mjúkt smjör
 • 300 g sykur

Krem:

 • 2 1/2 dl mjólk
 • 2 1/2 dl rjómi
 • 110 g sykur
 • 6 eggjarauður, við stofuhita
 • 45 g hveiti
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 plötur suðusúkkulaði

Gljái

 • 2 dl rjómi
 • 2 plötur suðusúkkulaði

Hrærið þurrefnin saman í skál; hveiti, kakó, lyftiduft, natron og salt. Hrærið saman í annarri skál egg, mjólk, kaffi og vanilludropa. Hrærið saman í þriðju skálinni smjör og sykur. Hrærið þurrefni og eggjablöndu varlega saman við smjörblönduna. Smyrjið og hveitistráið tvö 22 cm kökuform og skiptið deiginu milli þeirra. Bakið við 180 gráður í 25-30 mín. Fylgist vel með botnunum því ekki er gott að baka þá of mikið. Takið þá úr formunum og kælið.

Hitið mjólk og rjóma að suðu. Hrærið saman sykur og eggjarauður í skál. Bætið í hveiti. Hrærið 1/3 rjómablöndunnar saman við. Setjið út í pottinn, hrærið allt saman og komið upp suðu. Takið af hitanum og bætið vanilludropum og súkkulaði í. Hrærið þar til súkkulaðið bráðnar. Kælið og setjið í ísskáp. Ath. að það tekur tíma fyrir kremið að kólna og þykkna svo hægt sé að smyrja því á botnana.

Hitið rjóma og súkkulaði saman í potti þar til súkkulaðið bráðnar. Kælið og þá þykknar blandan svo auðveldara er að smyrja kökuna með gljáanum.

Skerið botnana þvert svo úr verði fjórir þunnir botnar. Smyrjið 1/3 af kreminu á neðsta botninn, setjið annan ofan á og svo koll af kolli, endið á botni. Á þessu stigi er ekki vitlaust að festa kökuna saman með tannstönglum eða grillpinnum, stinga helst alveg í gegn, láta kökuna í kæli um stund svo kremið taki sig á milli botnanna og kakan renni ekki til þegar gljáinn er smurður á hana. Kælið kökuna þar til hún er borin fram.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!