Halla Bára og Gunnar
Hugmyndir að góðgæti í fermingarveisluna
05. mars 2015

Hugmyndir að góðgæti í fermingarveisluna

Það vefst alltaf fyrir einhverjum sem er að fara að ferma barnið sitt að ákveða hvernig veitingar skuli vera í veislunni. Oft á tíðum er farin of flókin og tímafrek leið sem jafnvel er ekki endilega akkúrat það sem fermingarbarnið vill. Hafi það skoðun er um að gera að virða hana og hafa barnið með í ráðum. Brunch á ameríska vísu er eitthvað sem flestum börnum líkar. Pönnukökur og vöfflur með alls kyns gúmmilaði sem má sjálfur setja ofan á að eigin geðþótta. Það hreinlega klikkar ekki og er virkilega skemmtileg, einföld og pínu öðruvísi leið að fermingarveislu. Hér eru virkilega góðar uppskriftir af amerískum pönnukökum og vöfflum sem má mæla með í veisluna sem og hugmyndir af meðlæti og samsetningum.

Amerískar pönnukökur

 

500 g hveiti

6 tsk lyftiduft

1 tsk salt

1 tsk sykur

4 egg

3 dl súrmjólk

mjólk

 

Hrærið saman þurrefnin. Bætið eggjum og súrmjólk saman við. Hrærið. Þynnið deigið eins og þarf með mjólk. Í staðinn fyrir súrmjólk má nota jógúrt og það kemur mjög gott bragð þegar notuð er karamellujógúrt! Mjólkina þarf að nota til að ná réttri þykkt á deigið. Til að ná pönnukökunum frekar þykkum er betra að hafa deigið ekki voða þunnt. Athugið að deigið má gera daginn áður.

 

Vöfflur

 

300 g smjör

7 dl vatn

1 ½ kg hveiti

4 tsk lyftiduft

2 ½ tsk salt

8 egg

8 dl mjólk

 

Hitið saman smjör og vatn í potti og látið kólna aðeins. Hrærið þurrefnin saman. Hellið vatnsblöndunni saman við þurrefnin, brjótið eggin út í, hrærið aðeins. Þynnið með mjólkinni, það gæti þurft meira af henni, og hrærið þar til úr verður kekkjalaust og mjúkt deig. Athugið að hafa deigið ekki of þunnt. Deigið má gera daginn áður.

 

 

 

Hugmyndir að meðlæti

 

Reyktur silungur, sýrður rjómi, capers og eggjahræra (sjá uppskrift af henni hér að neðan)

 

Steikt beikon

Gæðaskinka

Góður brauðostur og aðrir ostar

Sultur

Þeyttur rjómi

Grísk jógúrt

 

Jarðarber og bláber, önnur ber

Bananasneiðar mýktar í örlitlu smjöri á pönnu

Aðrir ávextir

 

Gott hlynsíróp

Nutella

Hnetusmjör

 

Hvað fer vel saman:

Silungur, sýrður rjómi, capers og eggjahræra

Bananar, bláber og hnetusmjör, jafnvel smá síróp

Nutella og jarðarber

Ber og smá síróp

Sulta og rjómi

Ostar og sultur

…endalausir möguleikar

 

Eggjahræra

 

6 egg

30 g smjör

 

Bræðið helminginn af smjörinu á pönnu. Hrærið eggin áður en þið hellið þeim á heita pönnuna. Hrærið varlega í eggjunum og losið þau sundur. Aðalatriðið hér er að elda þau ekki of mikið. Á meðan þau líta út fyrir að vera ekki alveg tilbúin, mjúk ásýndar, skuluð þið slökkva á hellunni og hræra afganginn af smjörinu varlega saman við eggin þannig að smjörið bráðni. Eggin halda áfram að eldast á heitri pönnunni.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!