Halla Bára og Gunnar
Hnetusmjörsrjómaostur með hunangsristuðum pekanhnetum
28. febrúar 2017

Hnetusmjörsrjómaostur með hunangsristuðum pekanhnetum

Það er ansi langt síðan að ég fékk fyrst sætan rjómaost, með hunangslöguðum pekanhnetum, og hvað mér þótti hann hrikalega góður með nýbökuðum beyglum. Síðan þá hef ég haft það bak við eyrað að búa til eitthvert afbrigði af honum og ég lét verða af því um daginn. Þar sem ég er hnetusmjörsaðdáandi, þá datt mér í hug að nota hnetusmjör með, þannig að samsetningin sem varð úr er: hreinn rjómaostur, hrærður með hnetusmjöri og hlynsírópi ásamt hunangsristuðum pekanhnetum! Rosalega gott með nýju brauði, bollum, beyglum og ótalmörgu öðru.

 

Ostur:

1 lítil dós rjómaostur, 125 g

50-120 g hnetusmjör að eigin vali (magn verður að ráðast af smekk, smá sleppa)

2 msk. hlynsíróp

 

Hrærið hráefnið saman í þeytara eða hrærivél, betra að gera það með sleikjunni í hrærivélinni en þeytaranum. Hrærið þar til úr verður mjúk og slétt blanda.

 

Pekanhnetur:

1 bolli pekanhnetur, um 125 g

2 msk hunang

ötlítið sjávarsalt

 

Hitið ofn í 200 gráður. Dreifið vel úr hnetunum á bökunarplötu og ristið þær í 12-15 mínútur. Gætið að því að brenna ekki hneturnar, þarf að fylgjast með þeim. Takið úr ofninum.

Hitið pönnu á meðalhita. Setjið hneturnar og hunangið á pönnuna og blandið vel. Látið malla saman í 4-6 mínútur svo hneturnar þekist vel.

Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Dreifið úr hunangsgljáðum hnetunum, saltið örlítið og stingið aftur í ofninn í 2-3 mínútur. Takið þá út og látið kólna alveg.

Þegar hneturnar eru orðnar kaldar og stökkar, fara þær í matvinnsluvél þar sem þær eru muldar niður. Ekki gera þær að mauki, haldið grófleika. Setjið þá hnetumixið saman við ostablönduna í hrærivélinni og hrærið aðeins saman.

Setjið ostinn í huggulega krukku og kælið. Berið fram.

 

Osturinn er mjög góður með öllu nýju brauði, heimalöguðum bollum, grófu hafrakexi og beylum. Einnig er hann sniðugur til að nota í sætar fyllingar, sbr. í snúða.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!