Halla Bára og Gunnar
Hátíðargrænmetissæla - góð áramótafæða!
27. desember 2016

Hátíðargrænmetissæla - góð áramótafæða!

Virkilega góður forréttur. Gómsæt blanda í pastarétti. Gott á smáréttaborðið. Blandað grænmeti sem er hægeldað á pönnu, hollt og gott, og enn hollara með því að nota gæðaólífuolíu. Borið fram með uppáhalds ostunum.

Réttur sem Gunnar heftur heimfært eftir að hafa fengið svipað í New York: Sem forréttur með ostum og brauði, sem smáréttur á lítilli snittu, sem blanda út í pasta með rifnum osti, sem grænmeti með hátíðamatnum. Útfærsla sem svíkur ekki!

 

1 eggaldin

1 kúrbítur

1 rauð paprika

1 gul paprika

1 rauðlaukur

1 fennel

1 fersk chillí

salt

ólífuolía

 

Tindur

Rjómaostur

Mozzarella

 

Skerið allt grænmetið mjög fínt og smátt. Hitið pönnu og hellið á ólífuolíu, um 4 msk. Setjið grænmetið á pönnuna og mýkið. Á háum hita í 10 mínútur, hrærið stanslaust í á meðan. Lækkið svo á meðalhita og látið malla í 30-40 mínútur.

Takið af pönnunni, saltið eftir smekk. Hellið í skál og dreypið meiri ólífuolíu yfir ef ykkur þykir þörf á. Kælið.

Skerið ost, rífið niður eða smyrjið á diskinn. Komið grænmetinu fyrir á diski, uppsetning eftir smekk. Setjið ost á diskinn og berið fram.

Athugið að þessi grænmetisblanda gengur með svo ótalmörgu. Að sjálfsögðu liggur beint við að hafa gott brauð með þessu eða grilla sneiðar og bera fram í formi bruschettu. Þá er þetta líka frábær blanda út í gott pasta og rífa ost yfir, sbr. Tind eða Ísbúa.

 

                                                               

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!